Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.12.2008 | 17:07
Hæpinn sparnaður
Meðal fyrstu aðgerða sem stjórnvöld gripu til, í kjölfar bankahrunsins í október var opnun neyðarmiðstöðvar fyrir fólk sem var í andlegri nauð. Þetta þótti til fyrirmyndar og sýna að geðheilbrigðismál væru virkilega komin á dagskrá. Kreppan hefur snert illa við marga og eru áhrifin þó ekki að fullu komin í ljós. Full ástæða er til að koma málum svo fyrir að á geðdeildum sjúkrahúsa, í heilsugæslunni og annarsstaðar í velferðarkerfinu séu allir póstar mannaðir til að sinna þörfum fólks sem upplifir efnhagslegt og andlegt hrun. En dag skal að kveldi lofa. Skjót viðbrögð í haust virðast hafa verið sýndarráðstöfun. Það er í meira lagi hæpið að loka dagdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Ráðstöfunin er sögð eiga að skila 17,5 millj. kr. sparnaði, sem ég óttast þó að komi fram annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu fyrr en síðar. Satt að segja finnast mér þeir sem um ríkiskassann halda, sýna ákveðna fordóma með þessari ráðstöfun, enda hafði verið til þess mælst af Landlækni að geðheilbrigðisþjónustunni yrði þyrmt í ljósi aðstæðna.
Uppsagnir á geðdeild FSA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook
29.12.2008 | 16:28
Hagfótur og hamingja
Allt stendur þetta á pari. Framkvæmdir við álver í Helguvík eru að skríða af stað og í Straumsvík er stefnt að stækkun. Þetta kallar á byggingu orkuvera, bæði í Þjórsá og á Hellisheiði. Góðar tölur úr seyðamælingum gefa fyrirheit um að þorskkvótinn verði aukið lítið eitt á næsta fiskveiðiári. Fólk í ferðaþjónustu segir útlitið fyrir næsta sumar gott. Von sé á miklum fjölda erlendra ferðamanna hingað og vegna efnahagsástandsins sé líklegt að Íslendingar muni frekar halda sig heima en halda á sólarstrendur. Vestur í Bandaríkjunum ætti inngjöf stjórnvalda í hagkerfið að hafa skilað því að fyrirtæki sem yfir höfuð eiga sér lífsvon verða komin fyrir vind. Velgengni vestra smitar út frá sér og hagfóturinn ætti að verða kominn í eðlilega stærð um mitt ár 2010, eða þar um bil. En hagmingjan forði okkur frá því að gróðahyggjan blindi Íslendinga aftur og að búrar bankanna stjórni stóru sem smáu í þjóðlífinu.
Sala á orku hefjist 2011 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2008 | 14:37
Grægisgengið burt
Maðurinn er breyskur og freistingarnar víða. Ef græðgin væri ekki jafn óseðjandi púki og raun ber vitni, væri íslenska þjóðin ekki í jafn vondum málum og nú er raunin. Orsök þessa og afleiðing er spilling. Í sjálfu sér er góðra gjalda vert af þeim Akureyringum að vilja spillinguna burt, eins og sést á mynd af skilti mótmælenda. En það er fráleitt að vænta þjóðfélags án spillingar. Nær væri að hefja mannræktartilraunir sem hefðu að markmiði að útrýma grægðisgeninu. Og ég tel borna von að slíkt takist. Mannskepnan lærir fátt og gerir alltaf sömu mistökin aftur og aftur ef mannkynssagan er skoðuð, sem helgast af því hve gengamengi okkar er skelfilega ófullkomið.
Þögul mótmæli á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.12.2008 | 16:42
Gjafmild Jóhanna
Þetta er fínt mál. Að vísu láta opinberir aðilar oft eitthvað af hendi rakna til góðgerðarsamtaka sem gjarnan starfa skv. þjónustusamningum við sveitarfélögin og ríkið. Fjárveitingar frá ríkinu eru ýmsum skilmálum háðar, enda segir í stjórnarskrá að heimild þurfi í lögum fyrir öllum greiðslum úr ríkissjóði. Málið er því alls ekki svo einfalt að Jóhanna Sigurðardóttir, í góðmennskukasti á messu heilags Þorláks, hafi ákveðið að sletta milljónum á báðar hendur í þau samtök sem nefnd eru í þeirri frétt sem bloggfærsla þessi er tengd við. Málið er hins vegar klætt í þann búning að Jóhanna sé gjafmildi ráðherrann. En Guð láti gott á vita. Við þurfum breytta forgangsröðun í þjóðfélaginu, nú þegar svo margir eiga á brattann að sækja.
5 milljónir til styrktar félaga- og hjálparsamtaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.12.2008 kl. 15:07 | Slóð | Facebook
22.12.2008 | 13:36
Í siðuðu samfélagi!
Hækkun verðbólgu nú, helgast meðal annars af hækkun áfengisgjalds og bensínskatta. Hlutur ríkisvaldsins í málinu er ósmár. Stjórnvöld hefðu ekki átt að hækka álögur með þeim hætti sem gert er, meðal annars til að draga úr verðbólgu. Enn undarlegra er að hækka skatta á sama tíma til stendur að draga úr opinberri þjónustu og auka gjaldtöku, meðal annars á sjúkrahúsum. Hærri gjöld og minni þjónusta ríma ekki. En hér ber annars allt að sama brunni. Rétt er að minna á þau spakmæli sem Indriði H. Þorláksson fv. ríkisskattstjóri hefur stundum haft yfir: að skattar séu þau gjöld sem við greiðum fyrir siðað samfélagi. Í ljósi þessara orða er ekki hægt að réttlæta hærri skattgreiðslur. Ástandið nú er fjarri því sem gerist í siðuðum samfélögum.
Verðbólgan mælist 18,1% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2008 | 15:52
Frjálshyggan á fullu
Undirbúa ný fjárlög eftir áramót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook
19.12.2008 | 09:23
Að fóta sig í fláum heimi
Í nýársárvarpi fyrir nokkrum árum gerði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sérstaklega að umtalsefni kjör og aðstæður þess fólks sem leita þyrfti á náðir hjálparstofnana, til að geta haldið jólin með reisn. Fram hefur komið, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru ókátir með að forsetinn bryddaði upp á slíkri umræðu. Töldu að með því, væri verið um of að beina sjónum að hag þeirra sem verst stæðu. Slíkt þótti hreinasta goðgá í rétttrúnaðarhyggju góðærisins. Þegar svo var frá því greint fyrir síðustu jól að færri hefðu sótt um aðstoð en áður skrifaði kappsamur frjálshyggjupenni á Viðskiptablaðinu pistil hér á bloggi Mbl. og sagði merkilegt að sú staðreynd ein og sér hefði ekki vakið verðskuldaða athygli. Mátti á orðum hans skilja, að góðærið skyldi engan útundan. Sjálfur tel ég að fjöldi þess fólks sem segir sig til sveitar og óskar eftir aðstoð skipti ekki öllu máli. Bágindin eru söm hver sem fjöldinn er. Fólki gengur einfaldlega misvel að fóta sig í flárri veröld - og gagnvart því höfum við sem betur stöndum ákveðnar skyldur. Ekki síst þegar helgar hátíðir nálgast: aldrei sem þá er neyðin jafn nístandi.
Hundruð mæta í hverja jólaúthlutun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook
15.12.2008 | 11:14
Dýrmæt sérstaða
Kröftugt andóf almennings í kjölfar bankahrunsins er prýðilegt. Þau vitna um lifandi lýðræði og samfélag með lífsmarki. Mér finnst hins vegar fáránlegt að kalla skrílslæti fáeinna krakka "friðsöm mótmæli" og "borgaralega óhlýðni" eins og það er orðað. Það er utan hreppamarka alls velsæmis að grýta eggjum á Alþingishúsið, baula fyrir framan Ráðherrabústaðinn, gera strandhögg á lögreglustöðina og svo mætti áfram telja. Það sjónarmið er uppi að mótmælaaðgerðir af þessum toga séu það eina sem dugar, enda daufheyrist ráðamenn við röksemdum. Ég vil hins vegar benda á að sín mikilvægustu mál hafa Íslendingar jafnan leitt til lykta með samstöðu og skýrum rökum. Bendi þar á sjálfstæðisbaráttuna, handritamálið og þorskastríðin þrjú. Ég má ekki til þess hugsa að mótmælin nú leiði til þess að öryggissveitir þurfi að fylgja ráðamönnum okkar hvert fótmál og að við getum ekki lengur vænst þess að mæta þeim á Laugarveginum, í kjörbúðinni eða í heita pottinum í sundlauginni. Ef svo verður, hefur Ísland glatað dýrmætri sérstöðu í samfélagi þjóðanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2008 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2008 | 17:03
Táknrænt er nauðsyn
Formaður Samfylkingar, Ingibjörg Sólrún, telur hátekjuskatt ekki koma til greina. Slík skattlagning sé aðeins táknræn aðgerð og tekjurnar yrðu ekki miklar. Þetta kom máli ráðherrans sl. föstudag þegar blóðug niðurskurðaráætlun stjórnvalda var kynnt. En á sama tíma og þetta gerist, bisar ríkisstjórnin við setningu laga sem skikka eiga Kjaradóm að lækka laun ráðherra. Ætla má þó að slík launalækkun bjargi þjóðarhag; varla eru slíkar upphæðir undir að öllu skipti. Hér er því stefnt í austur og vestur í senn og ákvörðunarstaðurinn er óljós. Íslendingar þurfa að sigrast á vandanum með margvíslegum aðgerðum meðal annars hinum táknrænu.