Hæpinn sparnaður

Meðal fyrstu aðgerða sem stjórnvöld gripu til, í kjölfar bankahrunsins í október var opnun neyðarmiðstöðvar fyrir fólk sem var í andlegri nauð. Þetta þótti til fyrirmyndar og sýna að geðheilbrigðismál væru virkilega komin á dagskrá. Kreppan hefur snert illa við marga og eru áhrifin þó ekki að fullu komin í ljós. Full ástæða er til að koma málum svo fyrir að á geðdeildum sjúkrahúsa, í heilsugæslunni og annarsstaðar í velferðarkerfinu séu allir póstar mannaðir til að sinna þörfum fólks sem upplifir efnhagslegt og andlegt hrun. En dag skal að kveldi lofa. Skjót viðbrögð í haust virðast hafa verið sýndarráðstöfun. Það er í meira lagi hæpið að loka dagdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Ráðstöfunin er sögð eiga að skila 17,5 millj. kr. sparnaði, sem ég óttast þó að komi fram annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu fyrr en síðar. Satt að segja finnast mér þeir sem um ríkiskassann halda, sýna ákveðna fordóma með þessari ráðstöfun, enda hafði verið til þess mælst af Landlækni að geðheilbrigðisþjónustunni yrði þyrmt í ljósi aðstæðna.

 


mbl.is Uppsagnir á geðdeild FSA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband