Skattaparadís í sveitinni

Útsvarslækkun í Fljótsdalshreppi sýnir í hnotskurn fráleita skipan sveitarfélaga í landinu, sem ekki er í takt við tímann. Tekur á engan hátt mið af núverandi þjóðfélagsaðstæðum; það er vinnumarkaði, samgöngum, skólahaldi og svo framvegis. Fljótsdælingar njóta útsvarstekna af Kárahnjúkavirkjun og geta fyrir vikið haldið álagningu í lágmarki. Sama gildir um nokkra aðra fámenna sveitahreppa sem njóta jaðartekna. Má þar nefna Ásahrepp í Rangárvallasýslu sem hefur fasteignagjöld af virkjunum á Tungnársvæðinu. Þar í sveit er útsvar í lægstu gildum. Sama er uppi á teningnum í Grímsnes- og Grafningshreppi í Árnessýslu og Skorradal í Borgarfirði þar sem hreppssjóðirnir fitna ógurlega af fasteignatekjum af sumarhúsum. Stækkun sveitarfélaga ein og sér leysir ekki allan vanda, eins og sumir vilja vera láta. Patentlausnir virka sjaldnast. En að fámennir sveitahreppar geti í ljósi óvenjulegra aðstæðna orðið að einskonar skattaparadís er auðvitað rugl.

 


mbl.is Eitt sveitarfélag lækkar útsvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæpinn sparnaður

Meðal fyrstu aðgerða sem stjórnvöld gripu til, í kjölfar bankahrunsins í október var opnun neyðarmiðstöðvar fyrir fólk sem var í andlegri nauð. Þetta þótti til fyrirmyndar og sýna að geðheilbrigðismál væru virkilega komin á dagskrá. Kreppan hefur snert illa við marga og eru áhrifin þó ekki að fullu komin í ljós. Full ástæða er til að koma málum svo fyrir að á geðdeildum sjúkrahúsa, í heilsugæslunni og annarsstaðar í velferðarkerfinu séu allir póstar mannaðir til að sinna þörfum fólks sem upplifir efnhagslegt og andlegt hrun. En dag skal að kveldi lofa. Skjót viðbrögð í haust virðast hafa verið sýndarráðstöfun. Það er í meira lagi hæpið að loka dagdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Ráðstöfunin er sögð eiga að skila 17,5 millj. kr. sparnaði, sem ég óttast þó að komi fram annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu fyrr en síðar. Satt að segja finnast mér þeir sem um ríkiskassann halda, sýna ákveðna fordóma með þessari ráðstöfun, enda hafði verið til þess mælst af Landlækni að geðheilbrigðisþjónustunni yrði þyrmt í ljósi aðstæðna.

 


mbl.is Uppsagnir á geðdeild FSA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfótur og hamingja

Allt stendur þetta á pari. Framkvæmdir við álver í Helguvík eru að skríða af stað og í Straumsvík er stefnt að stækkun. Þetta kallar á byggingu orkuvera, bæði í Þjórsá og á Hellisheiði. Góðar tölur úr seyðamælingum gefa fyrirheit um að þorskkvótinn verði aukið lítið eitt á næsta fiskveiðiári. Fólk í ferðaþjónustu segir útlitið fyrir næsta sumar gott. Von sé á miklum fjölda erlendra ferðamanna hingað og vegna efnahagsástandsins sé líklegt að Íslendingar muni frekar halda sig heima en halda á sólarstrendur. Vestur í Bandaríkjunum ætti inngjöf stjórnvalda í hagkerfið að hafa skilað því að fyrirtæki sem yfir höfuð eiga sér lífsvon verða komin fyrir vind. Velgengni vestra smitar út frá sér og hagfóturinn ætti að verða kominn í eðlilega stærð um mitt ár 2010, eða þar um bil. En hagmingjan forði okkur frá því að gróðahyggjan blindi Íslendinga aftur og að búrar bankanna stjórni stóru sem smáu í þjóðlífinu.

 


mbl.is Sala á orku hefjist 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjáröflun með fírverki!

Milli Jóns Magnússonar alþingismanns og Kristins Ólafssonar framkvæmdastjóra Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hefur risið sérstök deila sem birst hefur á netmiðlum í dag. Þingmaðurinn sagði í útvarpsviðtali í morgun að fólk gæti sparað með því að kaupa ekki flugelda. Það telur slysavarnarmaðurinn út í hött. Segir að nær væri að hvetja fólk til að kaupa ekki áfengi. Í þessari deilu dagsins hafa báðir nokkuð til síns máls. Í núverandi árferði þurfa allir að spara og má einu gilda hvar borið er niður. Sjálfur vil ég björgunarsveitum þó allt hið besta. Tel óeðlilegt að félagasamtök sem gegna mikilvægu hlutverki í almannavörnum eigi nánast allt sitt undir sveiflukenndri fjáröflunarstarfsemi, eins og fírverkinu. Hlutverk öryggis- og björgunarsveita er síst minna en t.d. lögreglu, sjúkrastofnana og fleiri slíkra sem alfarið eru reknar fyrir opinbert fé.

 


mbl.is „Fer þokkalega af stað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír snillingar

Sem endranær er dagskrá Rás 1 í Ríkisútvarpinu prýðisgóð. Á öðrum degi jóla hlustaði ég á þátt þar sem vitnað var til ummæla Sigurðar Nordal prófessors. Hver setning var margræð og meitluð af mannviti og djúpri hugsun. Í sama þætti var leitað fanga í segulbandasafni RÚV og leikið viðtal frá árinu 1982 við Brodda Jóhannesson sem sagði frá sínum bernskujólum norður í Blönduhlíð. Alkunna er hvaða áhrif Nordal og Broddi höfðu á samtíð sína. Engin goðgá er að segja þá hafa flutt fjöll. Sama gerði Kristján Eldjárn. Ágætur lestur hans á sögu Stefáns frá Hvítadal var fluttur á Rás 1 nú síðdegis. Af þessu vaknar sú spurning hverjir samtíðarmanna okkar jafnokar þeirra höfuðsnillinga sem eru hér að framan nefndir. Stundum er spurt um áhrifamikla Íslendinganna og eru þá gjarnan dregnar fram  fígúrur í viðskiptalífinu. Ég gef ekkert fyrir slíkt. Spyr hverjir séu þeir einstaklingar sem móta menningu, viðhorf og sjálfsmynd þjóðarinnar. Hin raunverulegu verðmæti. Hafi lesendur hugmyndir þar um, þá sendið mér tölvupóst.

 

 


Undarlegar áherslur

Stundum er sagt að ekki muni um einn kepp í sláturtíðinni. Efnislega má sama segja um launalækkun alþingismanna nú; hún vegur ekki þungt í þeim blóðuga niðurskurði sem nú er yfirstandandi. Aðgerðin er fyrst og fremst táknræn. Gefur það fordæmi að ráðamenn líkt og aðrir axli byrðarnar. Hins vegar er rétt að hafa í huga í þessu ljósi að þann 14. desember sl. sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra að hátekjuskattur kæmi ekki til greina. Slíkt skattlagning skilaði litlu og væri fyrst og fremst táknræn. Slíkar aðgerðir eru hins vegar fullkomlega réttlætanlegar í því árferði sem nú ríkir. Í mínum huga er álagning hátekjuskatts, að mínum dómi, miklu eðlilegri en sjúklingaskattar á spítölunum. Hins vegar er goðgá að búast við miklu af Samfylkingunni sem gefur sig út fyrir að standa vaktina fyrir vora minnstu bræður í anda jafnaðarstefnu. Áherslurnar eru stundum undarlegar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
mbl.is Laun ráðamanna lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þröngsýn sjónarmið

Fjallað er ítarlega um Evrópumálin í nýjasta Bændablaði og skoðanir bænda í þeim efnum reifuð. Er þar vitnað til funda sem forysta bænda hélt með umbjóðendum sínum í desember. Viðhorf bænda í þessum efnum eru eftirtektarverð. Fyrst og síðast horfa þeir á sína eigin stöðu og hvort nánari samvinna við Evrópuþjóðir, svo sem með aðild að ESB, sé heppileg í því ljósi. Að minni hyggju væri  eðlilegri, víðsýnni og heilbrigðari afstaða að nálgast umræðuna um ESB út frá þeirri grundvallarspurningu hvort innganga í ESB væri hagfeld þjóðinni allri en ekki einstaka atvinnugreinum. Í frásögn Bændablaðsins er vitnað til ummæla Gunnars Þorgeirssonar bónda á Efri-Fitjum í Húnaþingi vestra sem telur þörf á því að bændur eigi sinn fulltrúa á Alþingi. Um þetta sjónarmið bóndans húnvetnska vildi ég sagt hafa að til setu á löggafasamkomunni þurfum við öðrum fremur að velja víðsýnt fólk sem gætir hagsmuna heildarinnar en ekki einstaka stétta og atvinnugreina.


Sjávarútvegurinn skiptir máli!

Fyrr á árunum sögðu fjölmiðlar oft og ítarlega frá því þegar vel veiddist og eftir mettúra togaranna voru þeir fréttaefni í fremstu röð. Jafnan fylgdi með fréttinni hver hásetahluturinn væri. Á síðari árum hafa svona fréttir haft minna vægi. Sögur af afrekum útrásarvíkinganna svonefndu hafa öðru skákað út af borðinu. Einstaka mönnum þótti sjávarúvegurinn engu skipta lengur. En allt snýst í hringi. Nú skipta útgerð og aflabrögð aftur öllu máli fyrir þjóðina. Nýjustu fréttir benda jafnframt til að fiskgengd sé að aukast sem aftur gefur væntingar um að auka megi þorskkvóta. Þrátt fyrir minni fisksölu erlendis og mjög erfiða skuldastöðu er sóknarhugur í útgerðarmönnum.


mbl.is Enn eitt aflametið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir slær varnagla

Geir H. Haarde slær ákveðinn varnagla þegar hann segir að velflestir ættu að geta staðið undir gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Hann viðurkennir, með hiki þó að því er virðist, að til sé fólk sem ekki eigi málungi matar og geti því ekki staðið undir gjaldtöku á sjúkrahúsum. Þess má því vænta tel ég að innan tíðar verði sett reglugerð þar sem tryggt verður að þeir sem verst standa geti alltaf leitað til heilbrigðisþjónustunnar. Ég ber fullt til Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum en tel jafnaðarmennina í Samfylkingunni til alls vísa, sbr. framgöngu kratanna sem sátu í heilbrigðisráðuneytinu á árinu 1991 til 1995. Framganga Sighvatar Björgvinssonar sem heilbrigðisráðherra var dæmafá og mátti líkja við skemmdarverk.

 

 


mbl.is Standa undir gjaldtöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grægisgengið burt

Maðurinn er breyskur og freistingarnar víða. Ef græðgin væri ekki jafn óseðjandi púki og raun ber vitni, væri íslenska þjóðin ekki í jafn vondum málum og nú er raunin. Orsök þessa og afleiðing er spilling. Í sjálfu sér er góðra gjalda vert af þeim Akureyringum að vilja spillinguna burt, eins og sést á mynd af skilti mótmælenda. En það er fráleitt að vænta þjóðfélags án spillingar. Nær væri að hefja mannræktartilraunir sem hefðu að markmiði að útrýma grægðisgeninu. Og ég tel borna von að slíkt takist. Mannskepnan lærir fátt og gerir alltaf sömu mistökin aftur og aftur ef mannkynssagan er skoðuð, sem helgast af því hve gengamengi okkar er skelfilega ófullkomið.

 


mbl.is Þögul mótmæli á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband