6.1.2009 | 07:07
Sögur af ritskoðun
Umræða um ritskoðun í fjölmiðlun sem nú er áberandi er mér að flestu leyti óskiljanleg. Tilfinnanlega vantar betri skýringu á ritskoðun! Hugmyndir blaðamanna um efni ná ekki alltaf í gegn. Stundum eru mál skotin niður; þykja af ritstjórum óbrúkleg eða ekki fréttnæm og við slíku er ekkert að segja! Stundum ná viðmælenda og blaðamaður ekki saman og þá getur besti kosturinn verið sá að birta ekkert. Einu sinni kom í minn hlut á ritstjórn að stytta viðtal - alltof langt - sem sem lausapenni út í bæ hafði skrifað. Sló vel af og viðbrögðin voru þau að ég stundaði ritskoðun! Ég man líka eftir því þegar þáverandi eigendur DV voru í framkvæmdum á Leirubakka í Landsveit og ég fór austur með ljósmyndara þar sem við skoðuðum herlegheitin. Barði svo saman grein um málið, sem ég fékk um síðir mikið breytta. Við Sigmundur Ernir sem þá var ritstjóri ákváðum að láta greinina rúlla eftir eigendanna óskum, því illt er að egna óbilgjarnan, eins og segir í Grettissögu. Skrifaði einhverntíma grein um upplýsingabyltinguna og ráðamenn og lofaði þar Björn Bjarnason fyrir að svara öllum erindum sem til hans væru beint nánast um leið. Taldi sjálfsagt að nefna þetta, nema hvað þá hringdi Guðni Ágústsson fólvondur og skammaði mig fyrir að hæla Birni. Lof um einn þótti last um annan. Sagði að hann svaraði alltaf öllum erindum fljótt og vel. Líka í tölvupósti. Veit ekkert um sannleiksgildi þess, nema að á ráðherraskrifstofu Guðna var engin tölva!! Er þetta ritskoðun? Nei, aðallega rugl!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:58 | Slóð | Facebook
5.1.2009 | 17:13
Óvenjulegt fjáröflunarstarf
Fréttir um slys af völdum fikts með flugelda eru árvissar. Aldrei er of varlega farið og margir bíða flugeldaslysa aldrei bætur. Kynugt er jafnframt að fírverkið er í flestum tilvikum keypt af deildum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Vörnum gegn flugeldaslysum virðist því vera nokkuð ábótavant. Skömmu fyrir jól lagði alþingismaður til að fólk sýndi ráðdeild og sparaði við sig flugeldakaup sem framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar tók óstinnt upp. Sjálfur tel ég að setja flugeldasölu verulegar skorður strax um næstu áramót og rétt er enginn skjóti þessum rokblysum upp, nema menn sem hafa til þess fullkomna kunnáttu. Jafnframt að slysavarnarfólk rói á önnur mið í fjáröflunarstarfi. Reyndar er mjög óeðlilegt að þar sem hjálparsveitunum er ætlað hlutverk í hinum opinbera almannavarnarkerfi, að þær eigi allt sitt undir velvild landans hvað varðar fjáröflun. Aðrir þeir sem koma að almannavörunum og þar með samfélagsþjónustu ættu þá að fjármagna starfsemi sína með sambærilegum hætti; lögreglan til dæmis með kökubasar og sjúkraliðsmenn ættu að ganga í hús og selja rækjur!
![]() |
Óvíst um sjón eftir flugeldafikt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2009 | 08:50
Græni karlinn pönkast ekki
Ár og síð stendur hann vaktina á Austurvelli og koparinn sem hann er gerður úr hefur tekið á sig grænan blæ, rétt eins og þökin á konungshöllum Kaupmannahafnar. Að vísu tók einhver sig til á dögunum og klæddi karlinn í bleika mussu. Slíkt er þó aðeins fótnóta í samanburði við allt hitt, það er að enn í dag getum við lært sitthvað af Jóni forseta Sigurðssyni. Las ævisögu þessa áhrifamikla Arnfirðings nýlega. Á milli línanna liggur að maðurinn hefur verið frekar leiðinlegur. Látum það liggja milli hluta. Meginmálið er að í allri sinni baráttu sýndi Jón forseti það góða fordæmi að vinna að framgangi mála með því einu að beita skýrum rökum. Fór aldrei fram með ofsa eða ofbeldi. Barðist einarðlega fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, sem náist á endanum - þá þegar Jón var reyndar horfinn fyrir hornið. Þori að fullyrða að karlinn á Austurveli hefði aldrei hent eggjum á Alþingishúsið eða pönkast á Hótel Borg. Með háttvísum baráttuaðferðum náði Jón árangri - sem mótmælendur mættu gjarnan hafa í huga.
![]() |
Umræðuhættir á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2009 | 21:19
Barn í stjórnmálum!
Sálfræðingar, heilbrigðisstarfsfólk, kennarar og aðrir slíkir mæla gegn því að börnum sé hlíft við krepputali og hafa þar sálarheill þeirra í huga. Undir þetta hélt ég að allir gætu tekið. Börn eiga ekki að hafa áhyggjur yfir erfiðleikum í hagstjórn eða pólitík. Enn verra er þó þegar fullveðja fólk beitir fyrir sig börnum í pólitískum tilgangi, eins og við sáum gerast á mótmælafundi á Austurvelli í dag. Í fréttum er Dagný Dimmblá sjö ára sögð hafa verið stirni dagsins og mælt skörunglega. Á hennar aldri var ég afar áhugasamur um stjórnmál og þvargaði um þau við alla. Flutti ávörp og hafði uppi stórkostlegar meiningar um hagsmuni þjóðarinnar. Hef hins vegar fyrir löngu séð að þetta var ekki beint heppilegt, allra síst fyrir sjálfan mig. Því vara ég mjög eindregið við pólitískum afskiptum barna. Foreldrar sem vilja börnum sínum vel eiga að afstýra slíku. Hæfileikum sínum eiga börn að finna viðnám með öðru móti - og ekki flytja ávörp á útifundi fyrr en fullorðinsaldri er náð.
![]() |
Mótmælt á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook
3.1.2009 | 15:34
Helmingaskiptaregla
Sú var tíðin að í Reykjavík voru starfræktar fjölmargar lögfræðistofur, þar sem sjálfstæðismaður og framsóknarmaður störfuðu saman. Verkefni lögmanna, sem svona störfuðu, voru að sinna málum fyrir einstaklinga sem höfðu komist í brauðmola frá hernum; verktakagróða eða stríðspeninga. Ég óttast að sama muni gera nú. Valdir lögmenn og kaupahéðnar sem tilheyra Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki setja á laggirnar félög sem kaupa eignir sem ríkisreknir bankarnir hafa leyst til sín, til að mynda illa löskuð fyrirtæki og íbúðahúsnæði. Á þann hátt mun helmingaskiptareglan endurtaka sig. Úlfarnir eru fljótir að renna á slóð bráðarinnar. Stjórnmálamenn hafa uppi haft góð orð um að þeir sem missa eignir sínar fái stuðning eftir mætti, til dæmis í gegnum Íbúðalánasjóð. Vafasamt er hins vegar að taka eitthvað mark á þeim frómu fyrirheitum, þegar ríkissjóður er galtómur og 22% þeirra tekna sem inn koma, fara í vaxtagjöld.
![]() |
Vextir 22% af skattfé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook
2.1.2009 | 16:13
Þröngsýn þúfnapólitík
Þingmönnum sem eiga bakland sinn í kjördæmum landsbyggðarinnar gengur efalítið gott eitt til, þegar þeir stíga á stokk og krefjast aðgerða vegna til að mynda hærra verðs á rafmagni og áburði, vondum vegum, póstdreifingu og svo framvegis. Þeir bera við að hin ótrúlegustu mál geti leitt til byggðaröskunar eða viðlíkra hörmunga. Gleyma því þá að verð á flestu hér á höfuðborgarsvæðinu hefur líka hækkað og fjölmargt mætti vera í betra lagi. Sífellt mal þingmanna af landsbyggðinni um meinta erfiðleika þar, er bjarnargreiði. Það er fínt að búa úti á landi og þingmenn mættu oftar ræða um það. Þeir kjósa hins vegar að gera vankantana að sérstökum baráttumálum sínum og tala heilu héruðin niður. Stjórnmálamenn, eins og Jón Bjarnason, telja kjósendur úti á landi oft á tíðum sérstaka bandamenn sína vegna baráttu þeirra fyrir sértækum hagsmunum. Sjálfum finnst mér hins vegar mikilvægara að á Alþingi sitji víðsýnt fólk sem horfir til hagsmuna fjöldans - þó svo þröngsýn þúfnapólitík hljómi sem tónlist í eyrum einhverra.
![]() |
Vill láta fresta hækkun á raforkuverði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.1.2009 | 14:12
Tignarleg Tindfjöll
1.1.2009 | 20:22
Ærlegur forseti
Endurreisn íslensks þjóðfélags verður ekki að veruleika, nema fólk spyrji krefjandi spurninga og nálgist hluti með öðrum hætti en verið hefur. Að því leyti skapar forseti Íslands okkur gott fordæmi. Hann er ærlegur þegar hann segist velta fyrir sér, hvort hann hafi gengið of langt í fylgisspekt og þénustu við banka og fjármálafyrirtæki í útrásinni. Nær hefði verið að hlusta á fólkið í landinu. Gaman væri að heyra frá ráðherrum ríkisstjórnar, hvort þeir telji sig hafa gengið of langt í að mæra útrásarvíkinga og sinna erindum þeirra. Þeir þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum - rétt eins og forsetinn hefur gert. Bessastaðabóndinn boðar átak við að reisa Ísland úr öskustó. Ég styð slíkt af heilum hug, en óttast hins vegar að í yfirstandandi harðæri sé hver sjálfum sér næstur. Fólk telji sig eiga nóg með sitt. Vona þó hið gangastæða. En mikið er áhugavert að lesa bloggpistla dagsins um nýársávarpið. Afstaðan fylgir í grófum dráttum hefðbundnum línum flokkastjórnmála þar sem sjálfstæðismenn eiga ómögulegt með að komast upp úr pólitískum skotgröfum.
![]() |
Þjóðarátak nýrrar sóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.1.2009 | 12:58
Spennandi tímar
Velt mæltist biskupnum okkar, Karli Sigurbjörnssyni í nýársprédikun sinni. Þar sagði hann að við þyrftum að endurheimta sameiginlegu samfélagssýn á Íslandi sem byggði á umhyggju og þjónustu umfram allt. Á virðingu og trausti, á ábyrgð og skyldu fremur en réttindum og á langtíma uppbyggingu samfélags fremur en skyndigróða til eigin hagsmuna fárra. "Látum það móta viðhorf og stefnu, ekki síst gagnvart þeim öldruðu og sjúku, fötluðu og svo börnunum! Þau mega ekki verða fórnarlömb félagslegrar upplausnar vegna fjármálahrunsins," sagði biskupinn. Og ennfremur: "Tökum öll höndum saman um að gera landið okkar betra, þjóðina sterkari til þjónustu við lífið og heiminn og jörðina, sem Guð gefur okkur." Allt þetta vildi ég sjálfur sagt hafa. Og taki þjóðin nú höndum saman undir einu merki við skapa heilbrigðara samfélag sem ekki er litað af gróðahyggju tel ég að framundan séu spennandi tímar. Endurreisnin er áhugavert verkefni.
31.12.2008 | 16:53
Illa endaði árið
Illa endaði árið. Aðgerðir hins reiða fólks eru komnar langt úr fyrir velsæmismörk vitsmunalífsins. Ég skil ólguna í þjóðfélaginu afar vel, en að hún leiti í þann farveg sem við höfum séð að undanförnu er hryggilegt. Satt að segja vona ég að snerran við Hótel Borg verði fólki sú lexía að það haldi sig framvegis á mottunni. Lögreglan hefur haft langt í taumnum og sýnt mótmælendum umburðarlyndi; en með atburðum dagsins hafa aðgerðarsinnarnir brennt brýr að baki sér og fyrirgert rétti sínum. Mikilvægt er uppbygging þjóðfélagsins eftir hrunið mikla hefjist sem fyrst - en þar næst enginn árangur nema með uppbyggilegri umræðu og jákvæðu hugarfari. Látum slíka breytni vera áramótaheit okkar allra. Að svo mæltu þakka ég lesendum bloggpistla minna samfylgd að undanförnu. Gleðilegt ár!
![]() |
Fólk slasað eftir mótmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |