12.1.2009 | 11:56
Sjálfsögð kurteisi
Ábendingar Umboðsmanns Alþingis snúast oftar en ekki um atriði sem eru lögfræði með öllu óviðkomandi. Opinbert stjórnvald á að svara öllum þeim erindum sem til þess berast, slíkt er einfaldlega spurning um sjálfsagða kurteisi og mannasiði. Merkilegt að atbeina Umba þurfi til að benda hinu virðulega ráðuneyti á slíkt. Og apparöt kerfisins eiga heldur ekki að taka sér eilífðartíma í að svara bréfum, jafnvel ár. Þegar skriflegum erindum er ekki svarað er það í raun ígildi þess að ráðuneytið svari aðeins völdum símtölum frá vildarvinum, jafn fáránlegt og það kann að hljóma. Stjórnsýslan er fyrir fólkið en ekki öfugt. Sjálfur þekki ég Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra af góðu einu og trúi að hann kippi þessu í liðinn.
![]() |
Fjármálaráðuneytið svari erindum sem því berast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2009 | 15:04
Aukaatriði verður aðalmál!
Sú hugmynd stjórnenda VR að veita félagsmönnum sínum örlán til að koma nýrri atvinnustarfsemi á laggirnar, er góðra gjalda verð. Margir eiga fínar hugmyndir í pokahorninu en vantar stuðning svo þær megi ná fram að ganga. Til eru ótalmörg fyrirtæki þar sem menn byrjuðu af miklum vanefnum við eldhúsborðið eða í bílskúrnum. Margir starfrækja sömuleiðis einhverskonar heimilisiðnað jafnhliða launavinnu. Hlutverk stéttarfélaga er fyrst og síðasta að tryggja hag félagsmanna sinna í krafti kjarasamninga og með öflugu stuðningsnet margskonar sjóða. Lánastarfsemi á við eðlilegar kringumstæður að vera á hendi banka og fjármálastofnana, en eins og nú árar gætu örlán stéttarfélaga nýst mörgum vel. En hvaða vexti slík lán myndu bera? Ef vextirnir yrðu 18% er verra af stað farið en heima setið. Annars snúast VR-mál fyrst og síðast um hvort það hafi verið siðferðislega verjandi af Gunnari Páli Pálssyni formanni félagsins, sem stjórnarmanni í Kaupþingi að samþykkja niðurfellingu, ábyrgðar af lánum sem lykilmenn í bankanum tóku. Með því að tíunda á þessum tímapunkti ýmsa þjónustu sem félagsmenn njóta, er aukaatriði gert að aðalmáli.
![]() |
Skoða örlán til VR-fólks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2009 | 21:13
Fjórþætt velferð
![]() |
Íbúðalánasjóður lánaði 64,4 milljarða árið 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2009 | 13:17
Ómarktæk skýrsla
Úttektum og athugunum sem opinberir aðilar gera er ætlað að tryggja hag neytenda og veita seljendum aðhald. Ósennilegt má þó teljast að þau markmið náist séu vinnubrögðin almennt eins og við sjáum í þessari úttekt heilbrigðiseftirlits Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Ekkert er sagt hvaða búðir selji besta ísinn eða hverjar þær verslanir eru sem selja ís sem inniheldur alltof mikið af gerlum. Á heitum sumardögum er yndisgott að fá sér ís og þá væri allra þakka verðast ef við fengjum að vita hvort ísinn sé betri á einum stað frekar en öðrum. Er ísinn í Skalla í Árbænum til dæmis betri en í ísbúðinni Álfheimunum? Skýrslan svarar engum af þessum spurningum og er fyrir vikið algjörlega ómarktæk, þarflaus og þeim er að henni standa til lítillar frægðar.
![]() |
Víða pottur brotinn í íssölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2009 | 11:48
Góð gagnrýni prestanna
![]() |
Vinnubrögðin nísta inn að hjarta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2009 | 10:56
Lífeyrissjóðir láni til tónlistarhúss
![]() |
Vill byggja 120 milljarða Háskólasjúkrahús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook
7.1.2009 | 22:46
Upptaktur einkarekstrar
Núverandi skipan heilbrigðisþjónustu í landinu var sett á laggirnar þegar aðstæður voru allt aðrar. Þegar samgöngur batna er hins vegar eðlilegt að það fyrirkomulag sem gilt hefur um rekstur heilsugæslu og sjúkrahúsa verði endurskoðað og því breytt, ef ástæða er til. Reyndar mætti tiltaka ýmis fleiri svið í ríkisrekstri þar sem nýir tímar og tækni skapa ýmsa möguleika til hagræðingar. Það ætti ekki að vera nein goðgá að reka eina heilbrigðisstofnun í hverjum landsfjórðungi, það er ef í hverjum þéttbýliskjarna er að minnsta kosti lágmarksþjónusta svo öryggi íbúa sé tryggt. Hitt skyldu menn þó hafa í huga að kenningar um hagkvæmni stærðarinnar eru oftar en ekki merkingarlítið þvaður, eins og reynslan hefur sýnt. Eitthvað segir mér þó að fiskur leynist undir steini í þeim áætlunum um sameiningu heilbrigðisþjónustu sem nú liggja fyrir; það er að til standi að skapa aukið svigrúm fyrir einkarekstur. Upptakturinn hefur verið sleginn. Gefum okkur svona eitt ár héðan í frá - þá verður búið að koma hrinda stefnumörkun um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni í framkvæmd!
![]() |
Svæðið stórt og samlegðaráhrifin mismikil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2009 | 16:50
Ebeneser og efnahagsundrið
Tók bryggjurúntinn sl. sunnudag og hitti þá strákana á Faxa sem voru að gera sjóklárt fyrir loðnuna. Draga næturnar um borð. Þeir sögðu mér hvernig veiðum yrði háttað og ég þóttist greina blik í augum þeirra. Ebeneser Guðmundsson stýrimaður var fullur eftirvætingar. Mikið er undirliggjandi. Og nú eru þeir á Faxa búnir að finna loðnu! Loðnuvertíðin hefur þegar best lætur verið að skila þjóðarbúinu tólf milljarða kr. tekjum. Og nú er loðnan fundin og ef allt fer vel mun gjaldeyririnn fossa inn í landið. Allt fyllist af peningalykt. Eftir hrunið hafa sjónir manna aftur beinst að sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og iðnaði; frumvinnslugreinunum sem skipta svo miklu fyrir afkomu okkar. En loðnan er duttlungafull og vekur oft undrun manna. Íslenska efnahagsundrið.
![]() |
Fundu loðnu undan Langanesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2009 | 13:43
Í minningu vinar
Mikið óskaplega getur óhamingjunni orðið margt að vopni. Í einni svipan er af slysförum horfinn frá okkur fjölskyldufaðir, traustur vinur, frábær og glaðvær félagi, öflugur málsvari hins réttláta og góða, snjall maður og útsjónarsamur sem mér finnst hafa verið í geislum sólar alla sína ævi. Við kynntumst fyrir rúmum þrjátíu árum og áttum samfylgd upp frá því. Fyrst sem skólafélagar og var hann seinna maður sem ég gat leitað til með mín veraldlegu mál. Lögfræðingurinn hafði svör á reiðum höndum. Því var ekki að ófyrirsynju að þessum frábæra manni væru falin svo mörg mál til úrlausnar í trausti þess að þau kæmust í heila höfn. Því er skaðinn óbærilegur fyrir svo marga, mest fjölskylduna sem nú syrgir.
Við töluðum saman síðast á sunnudag. Fyrir löngu var komin á sú hefð á, að við skiptumst á kveðjum á afmælisdögum okkar. Ég spurði hver staðan væri og hvort væri að birta yfir þjóðlífinu eftir hrakninga síðustu mánuða. Hann sagði svo vera. "Við getum ekki leyft okkur að hugsa öðruvísi," var svarið. Einföld orð sem örlögin hafa fengið nýtt inntak og merkingu.
Guðjón Ægir Sigurjónsson var drengur góður.
6.1.2009 | 09:41
Illa gefnir eftiráspekingar
Morgunblaðið birti snemmárs 2006 greinar þar sem uppbygging og rekstur íslenskra fjármálafyrirtækja var gagnrýndur. Umfjöllunin var byggð á mati erlendra sérfræðinga og greiningarfyrirtækja. Ein grein Mbl. bar einfaldlega yfirsögnina Bankar á bráðnandi ís. Með þennan fréttaflutning voru bankastjórarnir ókátir. Í viðtali sagði Bjarni Ármannsson að þekking starfsmanna Moggans á gangvirki fjármálalífsins mætti vera á "hærra þekkingastigi". Svipuð ummæli annara stjórnenda fjármálafyrirtækja má tiltaka. Sigurður Einarsson sagði danskan blaðamann sem spáði falli íslensku bankanna "óvenjulega illa gefinn" og í einhverju samhengi töluðu Kaupþingsmenn um "eftiráspekinga". Svör við gagnrýni voru yfirleitt í þessum dúr. Nú, þegar Bjarni Ármansson, hefur endurgreitt Glitni 370 milljónir sem einskonar syndaaflausn, er kostulegt að lesa ummæli hans. Bankastjórinn fyrrverandi segir að launagreiðlur bankans hafi verið ofrausn, íbúðalánin og svo framvegis. Er því eðlilegt að spurt sé, hvort stjónrendur bankanna hefðu ekki þurft að vera menn meiri þekkingar, en ekki "eftiráspekingar" sem eru "óvenjulega illa gefnir", svo notuð séu þeirra eigin orð.
![]() |
Endurgreiddi 370 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |