20.1.2009 | 09:43
Deleríum Búbónis!
![]() |
Milljarðalán án áhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 17:14
Fall er fararheill!
Sigur Sigmundar Davíðs í formannskjöri í Framsóknarflokknum kemur ekki á óvart. Ég var á fundinum í gær sem tíðindamaður þessarar bloggsíðu og fylgdist með erindum formannsefnanna. Ekki fór á milli mála að Sigmundur náði sálinni í salnum og stórir hlutir voru að gerast. Hann talaði beint í hjartastað fólksins. Að sigurinn nú yrði jafn afdráttarlaus og raun ber vitni kemur hins vegar á óvart. Í viðtölum bæði fyrir og eftir þingið hefur Sigmundur mest svarað í almennum frösum, við eigum enn eftir að sjá hvað hann hyggst raunverulega fyrir sem formaður í Framsóknarflokknum. Maðurinn er óskrifað blað. Að vera alsendis saklaus af innanflokksátökum og mistökum síðustu ára er Sigmundi Davíð þó óneitanlega til tekna. Hvað varðar mistökin við talningu í formannskjörinu vildi ég það eitt sagt hafa, að fall er fararheill!
![]() |
Sigmundur kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 13:07
Breytt byggðastefna
Á öllum tímum í mannkynssögunni hefur fólk flutt sig um set í leit að betra lífi. Okkur eiginlegt að flýja vondar aðstæður í von um að grasið sé grænna hinu megin. Stóra verkefnið sem stjórnmálamenn þurfa að takast á við í þessu samhengi er að gera Ísland aftur byggilegt. Við þurfum að komast undan skuldaklafanum, sigrast á atvinnuleysinu, vinna bug á verðbólgu og þannig áfram telja. Öll önnur mál eru afgangsstærðir. Byggðastefna dagsins í dag snýst um að gera landið aftur byggilegt. Við megum ekki við því missa ungt fólk úr landi og má þá einu gilda hvar það býr. Til þessa hefur hefur inntak byggðamálanna, sem svo eru nefnd, snúist um þá rétthugsun að halda öllum útkjálkum í byggð með því að leggja vegi, grafa jarðgöng og svo framvegis. Nú er endurreisn þjóðfélagsins eftir hrunið hins vegar orðin að byggðamáli - þar sem landið allt er undir. Við megum illa missa ungt fólk úr landi.
![]() |
Aukinn útflutningur á búslóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2009 | 23:33
Línurnar skýrast
Sú ályktun í Evrópumálum sem Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt er þýðingarmikil. Með henni liggur fyrir, með skýrum og afdráttarlausum hætti, hvert flokkurinn skuli stefna hvað varðar samskipti ESB og Íslands. Sömuleiðis mun stefnumörkun ráða miklum um niðurstöður í formannskjöri nk. sunnudag. Nýr formaður verður jafnframt bundinn af Evrópustefnu flokksþingsins, sem er hið fjölmennasta í sögu Framsóknar. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er undir lok mánaðarins þar sem Evrópumálin verða í brennidepli. Víða annarsstaðar, svo sem hjá samtökum vinnumarkaðarins og í ýmsum hagsmunasamtökum, leita menn nú besta lags í Evrópumálum með þá von í brjósti að hin hrjáða þjóð í norðrinu geti sótt gull í greipar Brussel. Hvort sem sú er raunin er alltjend til bóta, að skýrar línur á vettvangi stjórnmálanna liggi fyrir. Slíkt er mikilvægt veganesti í þeirri uppbyggingu sem nú er framundan.
![]() |
Framsókn vill sækja um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2009 | 22:21
Fyrirmyndin er Obama
Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, sem tekur við veldissprotanum næsta þriðjudag, hefur látið þau boð út ganga að hans fyrsta verk verði að grípa til róttækra aðgerða til að bjarga hag heimilanna þar í landi. Miklum fjármunum verður dælt inn í hagkerfið til að bjarga því sem verður. Vissulega eru aðstæður í Bandaríkjunum og hér heima fjarri því sambærilegar, en mikið væri nú annars huggulegt ef ríkisstjórn Geirs H. Haarde gripi til einhverra sambærilegra ráðstafana. Á Íslandi eru þúsundir fjölskyldna í sárustu neyð vegna verðtryggingar húsnæðislána og gjaldeyrislána sem hækkað hafa von úr viti, hugsanlega vegna brasks íslensku bankanna til að bæta sína eigin stöðu. Ríkisstjórnin gerir hins vegar fátt og smátt til að mæta kröfum þessa fólks - og nú er svo komið að andóf almennings virðist orðið sterkara pólitískt afl en hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar. Völdin eru að leka út úr höndum ríkisstjórnarinnar, sem vel mætti taka sér hinn þekkilega Obama sér til fyrirmyndar í röggsömum vinnubrögðum.
![]() |
100 milljarðar dala til að taka á vanda heimilanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2009 | 18:43
Hagsmunafélag og hugsjónir
Mesta hættan sem félagasamtök, stjórnmálaflokkar og aðrar slíkar hreyfingar standa frammi fyrir er að hugsjónin breytist stofnun. Lagt er upp í mikla vegferð þar sem fólk iðar í skinninu og langar til að hafa áhrif á samfélagið. Í fyrstu gengur allt skínandi vel en í fylling tímans ná loðmulla og vanafesta yfirhöndinni og eldurinn slokknar. Satt að segja ættu Hagsmunasamtök heimilanna að vera óþörf. Inntakið í starfi og stefnu launþegasamtaka eins og ASÍ, er varðstaða um velferð og afkomu heimilanna í landinu. Getur verið að það ágæta fróma markmið hafi snúist upp í andhverfu sína. Mér finnst til dæmis mjög merkilegt að hlusta á forystu launþega stíga á stokk og verja vítisvél verðtryggingarinnar og það á verðbólgutímum. Það er tæplega að ástæðulausu að fólkið í landinu stofnar sín sitt eigið hagsmunafélag sem getur - eins og önnur slík - haft mikil áhrif, takist vel til.
![]() |
Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2009 | 09:19
Hvað dóu margir í nótt?
Í fjölmiðlafræðum gildir sú einfalda regla að fréttir séu frávikið frá hefðinni - þegar fastir liðir eru ekki eins og venjulega. Í þessu ljósi vaknar sú spurning hvert sé raunverulegt fréttagildi þess atburðar sem hér segir frá í viðhengri frétt. Útkall slökkviliðs vegna smábruna þar sem einn er fluttur á sjúkrahús vegna hugsanlegrar reykeitrunar er engin frétt. Ergo: búið var að slökkva eldinn áður en brunaliðið mætti og sá sem á slysadeild fór var kannski með eitrun. Getur málið orðið ómerkilegra? En svona að öðru þar sem fiskur gæti leynst undir steini og frétt sem veigur er í; hvað dóu margir á Landspítalanum í nótt?
![]() |
Kviknaði í kodda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2009 | 21:28
Stappar nærri þjófnaði!
Sjúkrahúsin í landinu hafa í tímans rás átt allt sitt undir velvild og stuðningi hverskonar. Mikið af lækningatækjum þeirra eru gjafir frá kvenfélögum, karlaklúbbum og ýmsum félögum öðrum. Eru gjafirnar þá í flestum tilvikum eyrnamerktar viðkomandi stofnun og ætlast til af gefanda að þær séu notaðar þar. Nú þegar til stendur að gjörbreyta heilbrigðiskerfinu í landinu, flytja einstaka rekstrarþætti milli stofnana og leggja niður á öðrum vaknar sú spurning hvað verði um lækningatækin. Nefnt hefur verið í fréttum hve Hafnfirðingar hafa verið ötulir að gefa ýmsan búnað til St. Jósepsspítala í Hafnarfirði. Er hægt að flytja hann og nota á Keflavíkurspítala. Og væri hægt að taka búnað sem gefinn hefur verið sjúkrahúsinu á Króknum og nota á FSA. Í mínum huga stappar slík nærri að vera þjófnaður! Já, það fylgir því ekki bara sælan ein að þiggja gjafir sem þó eru gefnar af góðum hug!
![]() |
Heimsótti sjúkrahúsið á Sauðárkróki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook
13.1.2009 | 17:01
Núllpunktur á röngum stað
Oft er því haldið fram að tveggja prósenta atvinnuleysi sé nokkurkonar núllpunktur. Séu færri án starfa sé atvinnuleysi ekki til. Þeir sem skráð hafi sig án atvinnu séu þá milli starfa, glími við einhverskonar veikindi, eigi frekar að vera á bótum almannatrygginga og svo framvegis. Samkvæmt þessum röksemdum er atvinnuleysi í dag 2,8% en ekki tæplega fimm. Núllpunkturinn er því ekki rétt staðsettur. Þetta breytir þó ekki grafalvarlegri stöðu sem á efalítið eftir að versna. Kominn er kyrkingur í allan þjóðarlíkamann. Framkvæmdir eru að stöðvast og hvatningarorð ráðamanna um að fólk sem er án vinnu eigi að drífa sig í nám hafa reynst tóm þvæla, þar sem fjárveitingar til skólanna eru skornar niður svo þeim er tæplega gerlegt að taka á móti nýjum nemendum. Annars hef ég leyft mér að trúa því til þessa að þegar kemur fram á útmánuði muni eitthvað losna um heljartök kreppunnar. Með lengri sólargangi eykst fólki bjartsýni - svo einfalt sem það hljómar. Og þá muni jákvæðari fréttir fá aukið vægi en síðustu mánuði hafa svartagallsraus og sögur af bankakólerunni verið allsráðandi.
![]() |
Atvinnuleysi 4,8% í desember |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2009 | 13:21
Pólferðinni lokið
Miðstöðin heima hjá mér hefur verið í einhverju lamasessi síðustu daga. Í gærkveldi sló þó um þverbak enda fór frost harðnandi. Sat í úlpu fyrir framan sjónvarpið og ástandið var líkast því að ég væri staddur í einhverjum heimsskautaleiðangri Vilhjálms Stefánssonar. Hef lesið bækur um þau ferðalög. Hringdi í pípara í morgun sem kom að vörmu spori. Sá skrúfaði, breytti, bætti, stillti og tengdi. Tveggja tíma vinna. Og nú hefur færst ylur í húsið. "Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn," kvað Tómas í ljóðinu Austurstræti. Sama gildir í mínum ranni: þar er nú allt í senn ljós hiti og hamingja. Pólferð minni er lokið. Mikið held ég að það sé gaman að vera pípulagningamaður og töfrað fram hita í köldum húsum.
Umhverfismál | Slóð | Facebook