Örþreytt söngvaskáld

Ummæli Harðar Torfasonar í gær eru með þeim hætti að ómögulegt er að misskilja eitthvað eða snúa út úr. Allt er þetta býsna skýrt. „Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna ... Það er til dálítið sem heitir einkalíf og svo er stjórnmálalíf. Það er tvennt ólíkt," sagði söngvaskáldið. Mér finnst engin vörn í því sem bloggarar halda fram að Hörður hafi látið sér þetta um munn fara örþreyttur. Skömmin er söm fyrir því - og eðlilegt er því að maðurinn axli ábyrgð og víki úr forystu Radda fólksins.

 


mbl.is Greinilega snúið út úr ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörður axli ábyrgð!

Mörg falleg lögin hefur Hörður Torfason sungið og af því hef ég alltaf ráðið að hann sé hinn vænsti maður. En lengi má manninn reyna. Ummæli Harðar um veikindi forsætisráðherra gefa ástæðu til að ætla að þessi foringi Radda fólksins sé ekki með öllum mjalla. Ég tel að Hörður eigi að axla ábyrgð eftir þessa yfirlýsingu sína og stíga til hliðar úr forystu andófshreyfingarinnar.

 


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á stórum stundum

Oft er sagt að á stórum stundum og þegar vofveiflegir atburðir gerast sameinaðist íslenska þjóðin í einni sál. Vonandi er það ekki liðin tíð. Við núverandi aðstæður er mótmælum í raun sjálfhætt. Hverju þarf að mótmæla? Boðað hefur verið til kosninga, ríkisstjórnin er á förum og báðir formenn stjórnarflokkanna fársjúkir og á leið út af hinu pólitíska sviði. Algjör uppstokkun er framundan. Á þessum tímapunkti er samstaða þjóðarinnar mikilvægust. Með sundrungu sökkvum við enn dýpra. Geir H. Haarde og fjölskyldu hans sendi ég hlýjar kveðjur og óskir um bata. Geir þekki ég lítið. Get þó sagt eitt: það er hlýr svipur í augunum hans sem oft eru sögð spegill sálarinnar.

 


mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í 180 gráður!

Krafan um nauðsyn kosninga kemur úr öllum áttum. Flestir í Samfylkingu tala þannig og æ fleiri sjálfstæðismenn. Ríkisstjórnin lafir ennþá en þó er öllum ljóst að dagar hennar eru taldir. Athyglisverð er yfirlýsing Ágústs Ólafs Ágústssonar varaformanns Samfylkingarinnar sem var í broddi fylkingar á fundi Reykjavíkurfélags flokksins þar sem samþykkt var ályktun um að slíta bæri stjórnarsamstarfinu. Eftir fundinn sagði Ágúst Ólafur hins vegar að á meðan flokkur hans starfaði með Sjálfstæðisflokknum í stjórn væri það af fullum heilindum gert. Með þessu tókst litla manninum að tala algjörlega í 180 gráður í stuttu viðtali og varpa jafnframt algjörlega nýju ljósi á það í hverju heilindi í samstarfi felast.

 

 


mbl.is Ingibjörg vill kosningar í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæfileikamaðurinn SER

Sigmundur Ernir Rúnarsson er hæfileikamaður. Við unnum saman á DV í rúm tvö ár, frá 2001 til 2003. Hann var frábær yfirmaður og góður félagi. Ekki síður útsjónarsamur sem ritstjóri. Er fljótur að sjá fréttina í þeim málum sem að höndum ber og þekkir jafnan leiðina að því hvernig ná skal feng í hús. Fer ekki á taugum þótt blaðið standi rétt um það bil að fara í prentun og eitthvað standi enn út af. Veit að með samtakamætti en þó umfram allt annað léttri og góðri stemningu getur góð og samhent ritstjórn unnið kraftaverk. En þetta á víst ekki að vera minningargrein. Okkar maður verður komin í nýja vist fyrr en síðar - og rithöfundur er hann fantagóður. Simmi er langflottastur ...


mbl.is Frjáls undan oki auðjöfra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið á lagið!

Kjarasamningar eru undirritaðir og laun eru hækkuð. Verslanir nýta sér lagið og hækka verð vöru og þjónustu. Kaupmátturinn hrynur. Vextirnir eru í hæstu hæðum, verðbólgan fer sem logi um akur og lán bundin lánskjaravísitölu hækka dag frá degi. Algjör óvissa ríkir um framhaldið og valda þar miklu þær viðsjár sem nú eru í pólitíkinni. Á þessum tímapunkti er tel ég því mikilvægast að menn hreinsi borðið og boði til nýrra kosninga. Öðruvísi sköpum við ekki friðvænlegt andrúmsloft í þjóðfélaginu, sem er forsenda þess að við náum einhverjum tökum á hrikalegum vandamálum. Læt þó liggja milli hluta hvort nýrri ríkisstjórn takist betur upp en þeirri sem nú situr. Mikilvægast er að lægja öldurnar.

 

 


mbl.is Kaupmáttur minnkar um 8,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrefni samfélagsins

Gylfi Arnbjörnsson núverandi forseti ASÍ lýsti á sínum tíma yfir fylgisspekt samtakanna við Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu. Slíkar yfirlýsingar voru og eru fáránlegar. Fjöldahreyfing launafólks er skipuð fólki sem hefur jafn ólíkar skoðanir á stjórnmálum og það er margt. Að gera ASÍ að einhverskonar útibúi Samfylkingarinnar er jafn fáránlegt og að Samtök atvinnulífsins gerðust með yfirlýsingingum sínum óformleg deild innan Sjálfstæðisflokksins. Að undanförnu höfum við svo séð til Bændasamtakanna með fundaherferð gegn Evrópusambandinu, enda þótt ætla megi að bændur hafi jafn ólíkar skoðanir á Evrópumálum og þeir eru margir. Það væri sjálfsögðu kurteisi af hálfu bændaforystunnar að kynna viðhorf bæði með og á móti aðild að ESB. Að þessu orðum samandregnum vildi ég því sagt hafa að afdráttarlausar yfirlýsingar þverpólitískra hagsmunasamtaka eru mjög óviðeigandi. Krafa ASÍ um þingkosningar nú er þessu marki brennd. Alþýðusambandið getur ekki stöðu sinnar vegna krafist þingkosninga, enda þó svo einstaka forystumenn þeirra samtaka - líkt og annara - geti og eigi að sjálfsögðu að viðra sín persónulegu viðhorf. Frjáls umræða er súrefni lýðræðislegs samfélags.

 


mbl.is ASÍ vill nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litli karlinn

Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, talar eins og sá sem valdið hefur. Vissulega endurspegla krafa hans um kosningar viðhorf margra í hans flokki, en yfirlýsingin hefur þó sáralitla vigt. Fyrir framvindu málsins skiptir öllu hver eru viðhorf Össurar, Lúðvíks, Björgvins - og svo Ingibjargar Sólrúnar þegar og ef hún kemur aftur inn í pólitíkina. Held að ömurlegt sé að vera í stöðu Ágústs Ólafs. Að vera næstur formanni að völdum formlega séð en vera þegar allt kemur til alls litli karlinn í flokknum og það er í minnst tvöfaldri merkingu þeirra orða. Þetta breytir samt ekki því, að öll rök hníga að því að kosið verði í vor. En verður Ágúst Ólafur aftur í framboði? Þarf Samfylkingin ekki að hreinsa út, eins og aðrir flokkar.

 

 


mbl.is „Eigum ekki að óttast þjóðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blæðir í froðu

Ríkisstjórninni blæðir í froðu og lífsmagn hennar fjarar út. Ólíklegt er að stjórnin lifi lengi úr þessu enda er áhugi Samfylkingarfólks á áframhaldandi stjórnarsamstarfi sáralítill. Vinstri flokkarnir tveir hafa sömuleiðis fengið byr í seglin til að taka höndum saman um samstarf, eftir tilboð Framsóknarflokks í dag sum að verja minnihlutastjórn þeirra vantrausti, að því tilskyldu að boðað verði til kosninga í apríl nk. Þó tjaldað yrði til fárra nátta í minnihlutastjórn vinstri aflanna kemst hún þó ekki hjá því að leggja fram trúverðuga stefnu um bráðaaðgerðir, í þágu heimila og fyrirtækja. Sömuleiðis verða þeir forystumenn vinstri flokkanna sem fyrir eru á fleti að víkja. Ella er endurreisnin ótrúverðug.
mbl.is „Stjórnarslit fyrir helgi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómari í eigin sök!

Mikið óskaplega er nú gott að þjóðin fái þau svör refjalaus að lánveitingar Kaupþings til vildarvina  sl. haust hafi verið í stakasta lagi. Engin lög hafi verið brotin og þetta sé bara allt í þessu fína. Sigurður Einarsson fer varla með fleipur. Eða hvað? Í hvert sinn sem bornar hafa verið brigður á að Kaupþingsmenn hafi staðið rétt að málum hafa komið fréttatilkynningar líkar þessari, þar sem lesendur eru beðnir allra þakka verðast að taka ekki mark á fleipri um að þeir séu vondu karlarnir. Mikið vildi ég annars vera í sömu stöðu og Sigurður Einarsson að sagt afdráttarlaust til um lögmæti verka minna. Hver getur annars verið dómari í eigin sök?

 


mbl.is Sigurður segir engin lög hafa verið brotin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband