31.1.2009 | 11:57
Fyrir sinn snúð
Í fréttum síðasta sólarhringinn hefur gætt nokkurrar taugaveiklunar vegna þeirra sjálfsögðu fyrirvara sem Framsóknarflokkurinn setur, vegna stuðnings við vinstri stjórnina sem nú er að fæðast. Eðlilega vilja framsóknarmenn skerpa á tilteknum atriðum enda hefur komið fram að efnahagstillögur þær sem Samfylking og VG settu gengu ekki upp, að mati velþekktra hagfræðinga. Og eðlilega vill Framsókn fá eitthvað fyrir sinn snúð, þótt meginmálið sé auðvitað að nú þegar verði farið í aðkallandi aðgerðir í þágu fyrirtæka og heimila sem er að blæða út. Hvort ríkisstjórn sem starfa mun í þrjá mánuði tekst slíkt er hins vegar allt önnur saga.
![]() |
Stjórn mynduð í dag eða á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2009 | 09:37
Menn í mótsögn
Eins og Einar Már Guðmundsson rithöfundur sagði svo ágætlega í Morgunblaðsgrein sinni sl. sunnudag er viðbára íslenskra viðskiptamanna við hvers konar gangrýni jafnan sú að ekkert "óeðlilegt eða ólögmætt" hafi verið við þá viðskiptagjörninga sem í umræðunni eru hverju sinni. Þetta kann vel að vera rétt, en þá vekur hins vegar athygli hvers vegna peningar þeirra eru vistaðir í skattaskjólum víða um veröldina. Viðskipti fara fram undir nöfnum allskonar leynifyrirtækja þar sem eigendurnir eru aftur önnur fyrirtæki sem eru leyndinni hjúpuð. Einbjörn togar í Tvíbjörn. Fyrst viðskiptamógúlarnir hafa haft rétt við, að eigin sögn, og ekki gert neitt ólöglegt og óréttmætt, hvers vegna þurfa þeir að stofna leynireikninga á Ermasundseyjum, í löndunum við Karabíska hafið og nú síðast í Panama. Af hverju eru reikningarnir ekki einfaldlega undir nöfnum mannanna sjálfra og hér á landi. Eru mennirnir ekki í mótsögn við sjálfan sig þegar þeir segja allt í himnalagi en telja eigi að síður rétt að sveipa viðskipti sín þessum dulardjúp?
![]() |
Vistuðu hlutabréf í Panama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2009 | 09:15
Árið 1989
Fyrir tuttugu árum voru aðalleikarar ríkisstjórnarinnar þeir Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Í stjórnarandstöðu voru sjálfstæðismennirnir Þorsteinn Pálsson og Davíð Oddsson, borgarstjórinn sem þá var ört rísandi stjarna. Önnur áberandi voru til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson var líklegur til að láta að sér kveða, eins og kom á daginn. Þá hafði ung kona sem átti sína fortíð í Kvennalistanum vakið eftirtekt, sú var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Í stéttabaráttunni voru Jakinn og Bjargvætturinn helstu garparnir, þeir Guðmundur J. Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson sem nú eru báðir horfnir fyrir hornið. Þriðji stórleikarinn var Ögmundur Jónasson þá nýlega kjörinn formaður BSRB, enda tíðkaðist þá sem nú að velja þekkta fréttamenn í sjónvarpinu til forystu í félagsmálum.
Merkilegt má kalla að nánast allt það fólk sem hér er nefnt er enn á fullu. Bessastaðabóndi fer með stjórnarmyndunarumboðið og uppi í Mosfellssveit situr Jón Baldvin hvar hann mælir sem hinn alvitri maður og horfir reiður um öxl. Allt þjóðfélagið hverfist nú sem fyrr um Davíð, seðlabankastjórann sem á sínum tíma felldi Þorsteinn í formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum. Og Þorsteinn birtist okkur nú sem hinn yfirvegaði leiðarahöfundur Fréttablaðsins, sem skilgreinir þjóðfélagið með býsna athyglisverðum hætti og kemur oft með óvænt sjónarhorn á mál.
Jóhanna sem eitt sinn sagði að sinn tími kæmi verður væntanlega forsætisráðherra áður en vikan er úti og Össur er á góðri siglingu. Einasta breytingin sem orðið hefur virðist mér sú að Steingrímur Hermannsson er hættur í pólitík en Guðmundur sonur hans tekinn við keflinu og ætlar fram á hinum fornu veiðilendum föður síns og afa.
Það er ekkert nýtt undir sólinni.
![]() |
Nýtt verk, sömu leikarar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 16:41
Aukaframboðin
Samkvæmt því sem fram kom í fréttum í morgun eru Samfylking og VG ósammála um kjördag. VG vilja kjördag sem allra fyrst og í ágætum bloggpistli segir Ásta Möller þingmaður Sjálfstæðisflokks það vitanlega helgast af því að vinstri grænir vilji ekki gefa nýjum framboðum svigrúm. Með því að undirbúningstíminn sé sem skemmstur sjái VG möguleika á að kaffæra ný framboð í fæðingu. Líklega er þetta rétt. Þannig sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður VG fyrir síðustu kosningar efnislega að aukaframboð eins og Íslandshreyfingin væru til þess eins fallin að trufla kosningabaráttuna og þá flokka sem fyrir væru. Aukaframboðin, sem svo eru nefnd, eru samkvæmt þessu stórhættuleg og þá pólitíkusa sem lengst hafa staðið vaktina er goðgá að trufla.
![]() |
Býst við stjórn á laugardag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 12:13
Guðinn af Ströndum
Framboð Guðmundar Steingrímssonar í Norðvesturkjördæmi er tiltölulega rökrétt. Föðurafi hans, Hermann Jónassonar, var frá Syðri-Brekkum í Blönduhlíð í Skagafirði og þar var faðir hans Steingrímur Hermannsson í sveit sem strákur. Steingrímur var frá 1971 til 1987 þingmaður Vestfirðinga. Hermann Jónasson var lengst þingmaður Strandamanna og þar nyrða lifa enn ýmsar helgisagnir um manninn.
"Þið trúið heitar á Hermann en Guð og þó sést hann hér sárasjaldan," sögðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins við framsóknarmenn á Strandasýslu þegar þeir skynjuðu dræmar undirtektir.
"Ja, við trúum nú samt á Guð - og hann höfum við aldrei séð," svöruðu framsóknarkarlarnir þá á móti.
Guðmundur Steingrímssonar á því góðs að vænta á sínum nýju pólitísku veiðilendum.
![]() |
Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 11:59
Furðulegar fyrirframfréttir
Síðustu sólarhringa hafa ýmsir þingmenn Samfylkingar og VG verið nefndir sem líkleg ráðherraefni - og tilgreint hefur verið hvaða embættum þeir muni gegna. Össur á samkvæmt því sem fram hefur komið að taka við öllum atvinnuvegaráðuneytunum, Steingrímur verður fjármálaráðherra, Ögmundur tekur við heilbrigðismálunum, Katrín Jakobsdóttir fer í menntamálin og svo framvegis.
Allt er þetta þó næsta marklítið að ég tel. Nefna má, að í stjórnarmyndunarviðræðum 1983 var gert ráð fyrir því, allt fram á síðustu stundu, að Halldór Ásgrímsson tæki við fjármálaráðuneyti en niðurstaðan varð samt sú að hann fór í sjávarútvegsmálin. Og í þeim sömu viðræðum varð Steingrímur forsætisráðherra sakir þess hve bakland Geir Hallgrímssonar innan Sjálfstæðisflokksins var veikt.
Við myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988 var Guðrún Helgadóttir nefnd sem ráðherraefni og þótti sumum einboðið að hinn dáði barnabókahöfndur settist í stól menntamálaráðherra. DV birti vorið 1991 frétt um að Björn Bjarnason yrði heilbrigðisráðherra og fæstir sáu fyrir að Halldór Blöndal kæmist í ríkisstjórn eftir hraplegt gengi í kjördæmi sínu, þar sem hann fékk fjölda útstrikana. Svona mætti áfram tíunda ýmis dæmi af fyrirframfréttum um skipan ráðherrastóla. Menn skyldu því fara varlega að taka slíkum fréttir alvarlega nú.
![]() |
Fundað um stjórnarmyndun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 00:21
Fram úr sjálfum sér!
Fram hefur komið að forseti Íslands tók sé frest til morguns eftir viðtöl sín við formenn stjórnmálaflokkanna í kvöld. Í fyrramálið, þriðjudag, ætlaði hann að gera uppskátt með hver fengi umboð til stjórnarmyndunar. Vinstri grænir eru hins vegar komnir á fulla ferð og eru að leggja línurnar "... fyrir væntanlegar stjórnarmyndunarviðræður á morgun," eins og í viðhengri frétt segir. Einhverjir hefðu kannski beðið eftir því að forsetinn kynnti ákvörðun sína - ef ske kynni að utanþingsstjórn embættismanna yrði raunin. Kommarnir eru komnir fram úr sjálfum sér! Á bloggsíðum manna í VG má sömuleiðis sjá að þeir telja sig raunar strax komna í ríkisstjórn.
![]() |
VG leggur línurnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 21:01
Samfélaglegur friður
Þegar vinstri stjórn Hermanns Jónassonar sprakk seint á árinu 1958 beitti Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands sér í þeim viðræðum sem þá fóru í hönd. Hann kom minnihlutastjórn Emils Jónssonar til valda, en hennar stóra verkefni var breyting á kjördæmaskipuninni til þess háttar sem gilti fram á síðustu ár. Ári síðar tók Viðreisnarstjórnin við og átti Ásgeir ósmáan þátt í myndun hennar.
Í embættistíð Kristjáns Eldjárns þurfti forseti oft að beita sér í stjórnarmyndunarviðræðum; sem helgaðist fyrst og síðast af miklum efnahagsvanda Íslendinga. Árið 1980 var Kristján raunar kominn á fremsta hlunn með myndun utanþingsstjórnar eins og lesa má um í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völunarhús valdsins. Í embættistíð Vigdísar Finnbogadóttur gengu stjórnarmyndunarviðræður yfirleitt liðlega fyrir sig og sama hefur verið uppi á teningnum í Bessastaðatíð Ólafs Rangars. Það er í raun fyrst núna sem eitthvað reynir á hann við að tryggja þjóðinni starfhæfa ríkisstjórn.
Þau skilyrði sem Ólafur setur stjórninni þurfa í raun ekki að koma á óvart. Þau eru efnislega hin sömu og hann hefur áður sagt. Í dag sagði hann að ný ríkisstjórn þyrfti að skapa samfélagslegan frið. Þetta er í góðu samræmi við nýársávarp forsetans þar sem hann sagði að við þyrfum að "... í kjölfar hinnar erfiðu reynslu að gefa okkur tíma til að móta sáttmála um samfélagið ... Í slíkri umfjöllun hefðu allir ótvíræðan rétt til að láta í sér heyra, bæði málfrelsu og tillögurétt. Ef vel tækist til kæmi til greina að sáttmálinn yrði staðfestur í sérstakri atkvæðagreiðslu því gerð hans myndi byggja á valdinu sem er hjá fólkinu í landinu, þjóðinni sjálfri."
![]() |
Skapa þarf samfélagslegan frið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 09:48
Við Svörtuloft
![]() |
Skemmdarverk við Seðlabankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2009 | 20:14
Engum spurningum svarað!
Ætla má að víða í borg og byggðum sé fundað þessa dagana. Margir eru að stinga saman nefjum um ástand mála í þjóðfélaginu og bestu leiðirnar út úr vandanum. Sú frétt sem hér er viðhengd er til vitnis um það. Hins vegar er fréttin afskaplega rýr í roði. "Á fundi talsmanna margra grasrótarhreyfinga um lýðræðisumbætur var samþykkt að mynda samstöðu breiðfylkingar með það meginmarkmið að koma á nauðsynlegum breytingum og umbótum á íslensku samfélagi," segir í fréttinni - sem spyrja má hvort slíku nafni megi kallast. Spurningin svarar engum þeirra grundvallarspurninga sem vakna. Hverjar eru þessar grasrótarhreyfingarnar og hvaða einstaklingar standa að baki þeim. Hverjar eru í einni setningu sagt þær breytingar og umbætur sem þær vilja ná fram. Stendur til að bjóða fram í öllum kjördæmum, hver er í forsvari og þannig gæti ég áfram haldið. Þetta er frétt - um ekki neitt!
![]() |
Unnið að framboði grasrótarhreyfinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |