19.12.2008 | 18:54
Þingmaður í þversögn
Alþingismaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar, sagði nýlega að engin rök væru fyrir að auglýsingum í Ríkisútvarpinu. Því ætti að breyta lögum svo ljósvakamiðlar í eigu einkaaðila sætu einir að kökunni. Ég er ekki sammála þessu sjónarmiði þingmannsins. Þar sem frjáls markaðsbúskapur er við lýði eiga fyrirtæki að sjálfsögðu að hafa sjálfdæmi um hvernig þau haga markaðsmálum sínum. Stæði ég að fyrirtækjarekstri myndi ég án hiks auglýsa í RÚV, sem hefur mikla hlustun og áhorf. Sjónarmið um bann eða takmarkanir á auglýsingum í Ríkisútvarpinu ganga því þvert gegn öllum sjónarmiðum um frelsi í viðskiptum, sem Ágúst Ólafur hefur þó gefið sig út fyrir að styðja.
![]() |
Áfram auglýsingar á RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2008 | 15:52
Frjálshyggan á fullu
![]() |
Undirbúa ný fjárlög eftir áramót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook
19.12.2008 | 09:23
Að fóta sig í fláum heimi
Í nýársárvarpi fyrir nokkrum árum gerði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sérstaklega að umtalsefni kjör og aðstæður þess fólks sem leita þyrfti á náðir hjálparstofnana, til að geta haldið jólin með reisn. Fram hefur komið, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru ókátir með að forsetinn bryddaði upp á slíkri umræðu. Töldu að með því, væri verið um of að beina sjónum að hag þeirra sem verst stæðu. Slíkt þótti hreinasta goðgá í rétttrúnaðarhyggju góðærisins. Þegar svo var frá því greint fyrir síðustu jól að færri hefðu sótt um aðstoð en áður skrifaði kappsamur frjálshyggjupenni á Viðskiptablaðinu pistil hér á bloggi Mbl. og sagði merkilegt að sú staðreynd ein og sér hefði ekki vakið verðskuldaða athygli. Mátti á orðum hans skilja, að góðærið skyldi engan útundan. Sjálfur tel ég að fjöldi þess fólks sem segir sig til sveitar og óskar eftir aðstoð skipti ekki öllu máli. Bágindin eru söm hver sem fjöldinn er. Fólki gengur einfaldlega misvel að fóta sig í flárri veröld - og gagnvart því höfum við sem betur stöndum ákveðnar skyldur. Ekki síst þegar helgar hátíðir nálgast: aldrei sem þá er neyðin jafn nístandi.
![]() |
Hundruð mæta í hverja jólaúthlutun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook
18.12.2008 | 15:32
Peð fyrir riddara og hrók
Tryggvi Jónsson starfaði um langt árabil sem endurskoðandi hjá KPMG, var aðstoðarforstjóri Baugs um tíma og aðaleigandi og forstjóri Heklu um skeið. Störf hjá Landsbanka hóf hann á síðasta ári en hefur skv. orðum aðallögfræðings bankans ekki haft með að gera mál sem tengjst Baugi. Með öðrum orðum sagt þá hefur Tryggvi verið "starfsmaður á plani" eins og segir í vinsælum sjónvarpsþáttum. Vandséð er því hvernig störf Tryggva á vegum bankans gátu skyndilega orðið helsta bitbein mótmælenda, sem skiljanlega gremst að gullgröftur útrásarinnar breyttist í skítmokstur. Nær væri af hálfu gagnrýnenda að beina sjónum sínum að hærra hafa flogið og eiga raunverulega sök á fallinu. En allt er þetta samkvæmt bókinni. Einum óbreyttum er jafnan fórnað fyrir alla hina. Peð fýkur fyrir riddara, hrók og biskupa. Og ávinningur hina svonefndu aðgerðasinna sem óðu í Tryggva er ekki annar en eftir stendur fjölskylda í sárum. Teljast slíkt makleg málagjöld?
![]() |
Tryggvi hættur í Landsbankanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.12.2008 | 08:02
Ellefta boðorðið
Okkur eru vonbrigði að ekki skuli staðið við samninga, sagði Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands í viðtali við Morgunvaktina nú fyrir stundu. Þar vísar hann til þess að vísitölutenging beingreiðslna til bænda vegna búvöruframleiðslu, verður tekin úr gildi frá og með áramótum. Mæli Haraldur manna heilastur. Ég hef fullan skilning á knappri stöðu ríkisvaldisins við fjárlagagerð, sem einkennast af niðurskurði. En hefði þeim sem halda utan um fjármál ríkisins ekki verið nær að fara varlega í öllum yfirlýsingum og skuldbindingum, jafnvel þó góðærið hefði gefið tilefni til að spenna bogann hátt? Það er góður siður að lofa litlu en geta staðið við allt sitt. Að orð skulu standa er í mínum huga ellefta boðorðið - síst léttvægara en þau tíu sem á undan koma.
17.12.2008 | 23:05
Straumur og trökkdræver!
Á fyrrihluta eða um miðbik kjörtímabils, hvort heldur er á vettvangi sveitarstjórnarstigsins eða Alþingis, er alþekkt að upp spretta hreyfingar og bandalög úr jarðvegi tiltekinnar málefna. Sól í Straumi sem nú ætlar sér stóra hluti í innansveitarpólitík í Hafnarfirði er dæmi um þetta. Þá hefur Sturla Jónsson, trökkdræverinn ógurlegi, stofnað Framfaraflokkinn. Þessar tvær stjórnmálahreyfingar munu væntanlega hafa hátt næstu mánuðina, en koðna svo út af ef fordæmin ganga eftir. Öflugustu liðsmenn þeirra verða þá fengnir til að skipa sæti á listum einhvers af fjórflokknum, baráttumálin verða tekin inn í stefnuskrá þeirra stjórnmálaafla sem fyrir eru og svo framvegis. Enda mun fólk sjá hag sínum best borgið með þessum hætti, því það kostar peninga og ofboðslegan baráttuvilja til að setja nýjan stjórnmálaflokk á laggirnar. Andvana fætt - því miður.
![]() |
Framfaraflokkurinn fær listabókstafinn A |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.12.2008 | 12:23
Sólin kemur alltaf upp
Í gær óskaði Kristján Möller samgönguráðherra eftir heimild í fjáraukalögum vegna vegspotta sem ríkið kostaði og lagði að vatnssmiðju Jóns Ólafssonar austur í Ölfusi. Í dag vísar Héraðsdómur máli ákæruvaldsins á hendur Jóni og félögum hans, vegna meintra skattalagabrota frá dómi, þar sem þeim hafi þegar verið gerð refsing. Óhætt er því að segja að eftir mörg mögur ár sé hagur Jóns að vænkast. Sólin er aftur kominn upp og það þegar aðeins fimm dagar eru í vetrarsólstöður. Á erfiðleikatímum þarf þjóðin menn eins og Jón; sem eru hugumstórir og víla ekki fyrir sér að klífa þrítugan hamarinn.
![]() |
Skattamáli Jóns vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2008 | 10:21
Reiðir og hræddir
Á sem rennur til sjávar leitar sér alltaf að farvegi, hversu há sem stíflan er. Og sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir, segir í vísu Sigurðar Nordal. Á sama hátt birtist reiði almennings okkur á ýmsan hátt og ekki alltaf á þann veg sem sæmir. Mér er til dæmis mjög til efs um að hamagangurinn í Landsbankanum nú skili mótmælendum þeim ávinningi sem þeir vildu. Greinargóð umræða með skýrum rökum skilar mestu til lengdar og dropinn holar steininn. Hins vegar eru mótmælin skiljanleg að því leyti, að fólk sem er reitt og hrætt hugsar sjaldnast rökrétt. Hins vegar dáist ég mjög að framgöngu lögreglunnar. Geir Jón hefur haft býsna langt í spottanum og leyft mótmælendum ganga býsna langt.
![]() |
Mótmælendur skiptu um útibú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.12.2008 | 10:05
Léttasótt í harðæri
Sú spá að draga muni úr barnsfæðingum hér á landi næstu árin er hæpin. Efalaust munu fjölmargir flytja af landi brott í leit að betri tækifærum til sómasamlegar lífsafkomu. Slíkt eru eðlileg viðbrögð í kreppu. Fólk er alltaf í leit að betra lífi. En þeir sem grúska í sögunni vita sömuleiðis að aldrei sem í styrjöldum og harðæri er ástarlíf mannskepnunnar fjörlegt. Fólk þarfnast yls og umhyggju. Ást dag og nótt og afleiðingin er léttasótt. Við þekkjum öll sögurnar af "ástandinu" í Reykjavík á stríðsárunum. Mér finnst því allt eins sennilegt að Íslendingum muni fjölga næstu árin meira en þær breytur sem Hagstofan byggir á í útreikningum sínum segja til um.
![]() |
Dregur úr fólksfjölgum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 22:43
Evru og erlenda banka
Meðan vextir vestur í Bandaríkjunum eru í hæsta lagi fjórðungur úr prósentustigi fara stýrivextir hér heima algjörlega með himinskautum. Sá fáránleiki sýnir okkur best hve ónýtur íslenska krónan er og má sín lítils í alþjóðlegum viðskiptum. Hér er því rótækra aðgerða þörf. Evra eða annar gjaldmiðill er fyrsta skrefið og svo væri ekki úr vegi að selja einn ríkisbankanna þriggja til erlendra aðila. Slíkt myndi skapa heilbrigða samkeppni og ný viðmið í íslenskri bankastarfsemi. Því fyrr sem útlendingar koma að bönkunum því betra. Upphefð Íslendinga hefur oftast komið með erlendum áhrifum og nefni ég þar til dæmis hernámið árið 1940 og EES-samninginn. Hvoru tveggja olli jákvæðum straumhvörfum.
![]() |
Vextir 0-0,25% í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |