16.12.2008 | 15:24
Grænt og malar gull
Vatnssmiðja Jóns Ólafssonar í Ölfusinu er dæmi um gott framtak sem hefur skapað fjölmörg atvinnutækifæri þar eystra. Þetta er umhverfisvæn og græn stóriðja. Sjálfsprottið framtak manns sem er þekktur fyrir útsjónarsemi og dugnað. Byggðastefna eins og hún gerist best. Mér finnst því sjálfsagt að Alþingi samþykki aukafjárveitingu vegna vegspotta af þessa, enda allar lagaheimildir til staðar. Rífar 100 milljónir í þessu sambandi eru lítill peningur miðað við mörg önnur byggðaverkefni sem hafa verið styrkt en svo reynst tálsýn ein. Nefni þar refabúskap og fiskeldi. Vatnssmiðjan er hins vegar tekin til starfa og malar gull. Arðbært verkefni, þar sem aðkoma ríkisins er sjálfsögð.
![]() |
110 milljónir í veg að vatnsverksmiðju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2008 | 10:38
Vantar sykur og sultu
Mér hefur í seinni tíð stundum fundist nokkuð skorta á að Siv Friðleifsdóttir, sem ég þekki raunar af góðu einu, segi afdráttarlaust af hverju hún er í stjórnmálum. Við þurfum að vita um ætlunarverk hennar og hugsjónir ef einhverjar eru. Frá því Siv hvarf úr umhverfisráðuneytinu á sínum tíma hefur hún ekki náð neinu flugi sem stjórnmálamaður. Yfirlýsing hennar vegna framboðs til varaformanns vitnar um þetta. Plaggið eru aðeins almenn orð, innihaldslitlar og illa bakaðar lummur. Á þær vantar bæði sykur og sultu. Eitthvað bitastætt sem útskýrir fyrir okkur hvað Siv hyggst fyrir sem verði hún kjörin varaformaður Framsóknar.
![]() |
Siv býður sig fram til embættis varaformanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2008 | 23:57
Skömmin er auðmanna
Allir sem starfað hafa á ritstjórnum þekkja hve örmjótt bil þarf jafnan að feta í öllum fréttaflutningi. Segja þarf satt og rétt frá öllum staðreyndum en einnig gæta að þeim hagsmunum sem kunna að vera undirliggjandi. Stundum taka fréttastjórar og ritstjórar af skarið og birta mikilvægar fréttir með almannaheill í huga, enda þó þær komi við einhverra kaun. DV-málið sýnir að mínum dómi ágætlega hve erfiðri stöðu fjölmiðlamenn eru oft í. Barátta þeirra við peningavaldið í landinu er oft hræðilega illskeytt og erfið. Skömmin og sökin í þessu máli er þeirra sem hyggjast stjórna fréttaflutningi í krafti peninga - en ekki þeirra sem stýra og starfa á dagblöðunum.
![]() |
Íhugar málsókn gegn Kastljósi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.12.2008 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 19:08
Rýrt í roði
Ofurfrjálshyggja og alhliða hömluleysi skýra hrun bankanna að verulegu leyti. Fjölmargt fleira kemur þó til, svo sem aðstæður á erlendum mörkuðum sem Íslendingar gátu ekki haft nein áhrif á. Hins vegar gerði Samfylkingin engar tilraunir til bregðast við aðstæðum við myndun núverandi ríkisstjórnar, svo sem einhverskonar takmörkunum á fjármálamarkaði. Og muna má að Ingibjörg hélt handan um höfin með Kaupþingsstjórum þar sem danska pressan var beðin um gott veður. Orð formanns Samfylkingar eru því ósköp rýr í roði þegar litið er til fortíðar.
![]() |
Ingibjörg: Orsökin liggur í ofsafrjálshyggjunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2008 | 11:14
Dýrmæt sérstaða
Kröftugt andóf almennings í kjölfar bankahrunsins er prýðilegt. Þau vitna um lifandi lýðræði og samfélag með lífsmarki. Mér finnst hins vegar fáránlegt að kalla skrílslæti fáeinna krakka "friðsöm mótmæli" og "borgaralega óhlýðni" eins og það er orðað. Það er utan hreppamarka alls velsæmis að grýta eggjum á Alþingishúsið, baula fyrir framan Ráðherrabústaðinn, gera strandhögg á lögreglustöðina og svo mætti áfram telja. Það sjónarmið er uppi að mótmælaaðgerðir af þessum toga séu það eina sem dugar, enda daufheyrist ráðamenn við röksemdum. Ég vil hins vegar benda á að sín mikilvægustu mál hafa Íslendingar jafnan leitt til lykta með samstöðu og skýrum rökum. Bendi þar á sjálfstæðisbaráttuna, handritamálið og þorskastríðin þrjú. Ég má ekki til þess hugsa að mótmælin nú leiði til þess að öryggissveitir þurfi að fylgja ráðamönnum okkar hvert fótmál og að við getum ekki lengur vænst þess að mæta þeim á Laugarveginum, í kjörbúðinni eða í heita pottinum í sundlauginni. Ef svo verður, hefur Ísland glatað dýrmætri sérstöðu í samfélagi þjóðanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2008 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 09:58
Tíminn er hringur
Tíminn er ekki bein lína heldur hringur. Flest ef ekki allt sem gerist í núinu á sér fordæmi. Þannig voru hugmyndir um fæðisgjald sjúklinga á Landspítala ræddar í tíð Viðeyjarstjórnarinnar sem sat 1991 til 1995. Lungann úr þeim tíma var Sighvatur Björgvinsson í ráðuneyti heilbrigðismála og beitti niðurskurðarhnífnum af ofsa og vildi auka kostnaðarvitund sjúklinga. Innan fárra daga munum við sjá fleiri hugmyndir um niðurskurð. Næsta hugmyndin verður væntanlega að taka upp heilsukort lík þeim sem Guðmundur Árni vildi innleiða. Og í öllu þessu spilverki leika svonefndir jafnaðarmenn aðalhlutverkið, nú sem samherjar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
![]() |
Upptaka fæðisgjalda hugsanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2008 | 19:47
Forsetamyndin
Fæstir geta á móti mælt að Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið aðsópsmikill í embætti forseta Íslands. Raunar má einu gilda á hvaða vettvangi þessi drengur úr Dýrafirði hefur starfað, hvarvetna hefur hann riðið með björgum fram og jafnvel ekki sést fyrir. Þannig var hann meðal annars í pólitíkinni. Myndin sem hér fylgir var tekin sl. sumar á ráðstefnu sem var haldin í tilefni af áttræðisafmæli Steingríms Hermannssonar þar sem var fjallað um stjórnmálaferil hans. Ólafur er fyrir miðju - en á myndinni eru annars tveir formenn stjórnmálaflokka, tveir fjármálaráðherrar, tveir iðnaðarráðherrar og tveir ritstjórar Þjóðviljans. Og er ekki rétt munað hjá mér að Friðrik Sophusson hafi verið orðaður við hugsanlegt forsetaframboð árið 1996.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2008 | 17:03
Táknrænt er nauðsyn
Formaður Samfylkingar, Ingibjörg Sólrún, telur hátekjuskatt ekki koma til greina. Slík skattlagning sé aðeins táknræn aðgerð og tekjurnar yrðu ekki miklar. Þetta kom máli ráðherrans sl. föstudag þegar blóðug niðurskurðaráætlun stjórnvalda var kynnt. En á sama tíma og þetta gerist, bisar ríkisstjórnin við setningu laga sem skikka eiga Kjaradóm að lækka laun ráðherra. Ætla má þó að slík launalækkun bjargi þjóðarhag; varla eru slíkar upphæðir undir að öllu skipti. Hér er því stefnt í austur og vestur í senn og ákvörðunarstaðurinn er óljós. Íslendingar þurfa að sigrast á vandanum með margvíslegum aðgerðum meðal annars hinum táknrænu.
14.12.2008 | 16:24
Óhamingja Sullenberger
Á krepputímum þurfum við bjartsýnismenn. Íslendingar munu ekki sigrast á þeim vandamálum sem nú eru uppi, nema dugandi fólk leggi á brattann og fikri sig upp þrítugan hamarinn. Á hinn bóginn er afleitt upplegg, að fara út í viðskipti með hefnd að leiðarljósi og til höfuðs einstaka mönnum; það er Baugsfeðgum. Sé lagt upp í för með óhamingjunni einni verður útkoman eftir því. Af hálfu Sullenberger væri trúverðugt að segjast ætla í bísness, einfaldlega til að græða peninga og verða stór og sterkur. Vafasamt að nú sé rétti tíminn til að opna verslun; sbr. að í haust setti Bauhaus fyrirætlanir sínar þar um á ís og staða margra kaupahéðna virðist býsna bág.
![]() |
Hyggst stofna lágvöruverðsverslun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)