20.2.2009 | 08:54
Opið bréf til Örlygs og Þórarins
Kannski er ég farinn að sjá mína eigin skólagöngu í ljóma fortíðarinnar, en ég minnst þess ómögulega að ástandið í Fjölbrautaskóla Suðurlands hafi verið jafn ómögulegt og sagt hefur verið frá í fréttum síðustu daga þegar ég var þar. Vitanlega hefur samfélagið breyst á þeim tuttugu árum sem síðan eru liðin. Háttalag nemenda er vænanlega annað nú en þá og umburðarlyndi samfélagsins gagnvart hverskonar ofbeldi meira. En svo á ekki að þurfa að vera. Við eigum að vera góð hvort við annað - og til þess að það fróma markmið nái fram að ganga þurfa þeir sem málum stjórna í Fjölbrautarskóla Suðurlands að taka á sig rögg og reka rakkarapakkið úr skóla. Ég skora hér með á Örlyg Karlsson skólameistara, og ljúfmennið úr Eyjum, Þórarinn Ingólfsson aðstoðarskólameistara, að gera nú ærlegan skurk svo varmenni í hópi nemenda valdi ekki meiri skaða en þegar er orðinn. Sem gamall nemandi í skólanum finnst mér ég eiga kröfu á slíku - og tel mig þar raunar mæla fyrir munn hundruða ef ekki þúsunda sem numið hafa í hinu ágæta menntasetri í Flóanum.
Ráðist með grjóti á 16 ára pilt í FSu á Selfossi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |