5.1.2009 | 08:50
Græni karlinn pönkast ekki
Ár og síð stendur hann vaktina á Austurvelli og koparinn sem hann er gerður úr hefur tekið á sig grænan blæ, rétt eins og þökin á konungshöllum Kaupmannahafnar. Að vísu tók einhver sig til á dögunum og klæddi karlinn í bleika mussu. Slíkt er þó aðeins fótnóta í samanburði við allt hitt, það er að enn í dag getum við lært sitthvað af Jóni forseta Sigurðssyni. Las ævisögu þessa áhrifamikla Arnfirðings nýlega. Á milli línanna liggur að maðurinn hefur verið frekar leiðinlegur. Látum það liggja milli hluta. Meginmálið er að í allri sinni baráttu sýndi Jón forseti það góða fordæmi að vinna að framgangi mála með því einu að beita skýrum rökum. Fór aldrei fram með ofsa eða ofbeldi. Barðist einarðlega fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, sem náist á endanum - þá þegar Jón var reyndar horfinn fyrir hornið. Þori að fullyrða að karlinn á Austurveli hefði aldrei hent eggjum á Alþingishúsið eða pönkast á Hótel Borg. Með háttvísum baráttuaðferðum náði Jón árangri - sem mótmælendur mættu gjarnan hafa í huga.
![]() |
Umræðuhættir á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |