Færsluflokkur: Bloggar
19.3.2009 | 09:28
Galið fyrirkomulag
Fólkið í landinu borgar 4% af launum sínum í lífeyrissjóð. Atvinnurekandi greiðir svo 8% framlag sem er skilgreint sem rekstrarkostnaður sem er frádráttarfær frá skatti. Þar með eiga stjórnendur fyrirtækja - þegar grannt er skoðað - engan rétt á að hafa áhrif á rekstur lífeyrissjóðanna, ekki frekar en til dæmis annara þeirra fyrirtækja. sem þeir eru í viðskiptum við. Séu atvinnurekendur hins vegar tilbúnir til að reiða fram þessi 8% án þess að fá þau frádráttabær sem rekstrarkostnað er ekkert sjálfsagðara en þeir eigi fulltrúa í stjórum lífeyrissjóða. Núverandi fyrirkomulag er hinsvegar algjörlega galið.
Hugmynd um lífeyrissjóði án fulltrúa SA ótæk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2009 | 21:00
Siðlaus verkalýðshreyfing!
Forystumenn ASÍ hafa lög að mæla þegar þeir segja arðgreiðslur til eigenda HB-Granda "hreinlega siðlausar" á sama tíma og starfsmenn fyrirtækisins fá ekki þær launahækkanir sem umsamdar voru. Um mál þetta má annars segja að það er nógu einfalt í eðli sínu þannig að alþjóð hafi á því skoðun. Efnahagsmálin í breiðu samhengi eru of flókin til þess að fólk geti tekið rökræna afstöðu til einstaka þátta þeirra. Og þó. Sjálfsagt finnst fleirum en mér sjálfum ansi hart að sjá verðtrygginguna hækka húsnæðislánin mín frá mánuði til mánaðar svo nemur tugum þúsunda. Forysta launþega hvar Gylfi Arnbjörnsson er framstur meðal jafningja ver hins vegar verðtrygginguna fram í rauðan dauðann sem mér finnst vera "hreinlega siðlaust" svo ég noti hans eigin orð.
Hreinlega siðlaust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2009 | 17:36
Afskriftir eru skattskyldar!
Ríkið á alla bankana í landinu og sömuleiðis Íbúðalánasjóð. Ef skuldir hverrar fjölskyldu verða færðar niður um fjórar milljónir kr. hlýtur slíkt að flokkast undir skattskyldar tekjur. Í dag er tekjuskattur af hverri krónu 37,2% og samkvæmt tillögu Lilju Mósesdóttur þarf hver fjölskylda af milljónunum fjórum þá að borga í skatt rétt tæplega 1,5 millj. kr. Tillaga þessi er því sýnd veiði en ekki gefin - nema hvað afskriftirnar munu kosta ríkið minna en útlit er fyrir.
Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2009 | 08:57
Rétt og rangt!
Þegar sú staðreynd virðist blasa við að sjálftökumenn Íslands hafi leikið lausum hala um langa hríð vaknar sú spurning hverjar ástæður þess séu. "Hvernig gat þetta gerst," spyrjum við okkur gjarnan í kjölfar vofveiflega atburða og leitum skýringa. Í raun og sann finnast mér svarið blasa við; göt voru í girðingum þannig að sjálftökumenn gátu gengið á lagið og farið sínu fram. Og þeir þurftu á stundum ekki að beita neinum sértökum töfrabrögðum enda svaf eftirlitskerfið að ekki sé talað um stjórnmálamenn sem setja eiga landinu leikreglur. Eftir hrunið mikla munu sjálfsagt einhverjir vænta ærlegrar og tímabærrar tiltektar og að hér verði byggt upp heilbrigðara samfélag. Sjálfur reikna ég ekki með slíku. Mannkynssagan vitnar um að fólk lærir sjaldnast af dæmum hennar heldur fer sínu fram - og þegar vænta má fjárhagslegs ávinnings verða margir slegnir blindu á hvað er rétt og rangt.
Íslands sjálftökumenn hafa leikið lausum hala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2009 | 10:43
Kominn tími til
Kominn tími til, kynni einhver að segja. Undarlegt má telja að stjórnendur leikskóla Reykjavíkurborgar hafi talið ógerlegt að segja starfsmanni upp störfum þó svo brot hans gagnvart skjólstæðingi sínum væri alvarlegt. Enn kynlegri hending er, að í umræddu máli hafi þeir sem leikskólamálum stjórna ekki gengið fram og rekið starfsmanninn fyrr en málið var komið í fjölmiðla, sem aftur endurspeglaði sleifarlagið. Á stundum er í myrkviðum hins opinbera kerfis gerð sú krafa til þeirra sem órétti eru beittir að leyst skuli úr málum viðkomandi í grænum hvelli, að því tilskyldu að ekki sé farið með málið í fjölmiðla. Slíkt er miður, enda er frjáls umræða súrefni lýðræðislegs samfélags.
Hefur verið sagt upp störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.3.2009 | 13:47
Maður sjaldgæfrar gerðar
Ragnheiður Elín sigraði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.3.2009 | 13:36
Þingmaður horfins tíma
Jón Bjarnason talar á Alþingi fyrir veröld sem var. Hann berst á hæl og hnakka þegar leggja á af eða stytta á afgreiðslutíma í bönkum og pósthúsum þar sem koma fimm til tíu viðskiptavinir á dag, hann vill húsmæðraskóla aftur til vegs og virðingar, á dögunum skrifaði hann grein um snjómokstur í Árneshrepp á Ströndum og telur sömuleiðis afleitt að Samkeppniseftirlitið skuli hafa sektað forystu bænda fyrir ólöglegt samráð um hækkun búvöruverðs sem bitnar á neytendum. Þá vildi hann á sínum tíma lækkun álaga á eldsneyti bifreiða, þar sem slíkt bitnaði á dreifbýlisfólki. Að þingmaður flokks sem kenni sig við umhverfisvernd bryddi upp á slíku máli er afar kúnstugt. Nýjasta málið er svo barátta Jóns fyrir tilvist Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, sem er mengandi stóriðja inn í miðjum kaupstað. Má af því ráða að sjónarmið umhverfisverndar séu léttvæg fundin í huga þingmann hinnar grænu stjórnmálahreyfingar .
Jón Bjarnason leiðir í NV-kjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2009 | 11:22
Á ábyrgð Alþýðuflokksins
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hreinsar andrúmsloftið með því að biðja Breiðavíkurdrengina afsökunar. Rétt er þó að halda mikilsverðu atriði til haga í þessu sambandi; því að vistheimilið vestra var ein af undirstofnunum menntamálaráðuneytisins og með húsbóndavald þar frá 1956 til 1971 fór Gylfi Þ. Gíslason ráðherra Alþýðuflokksins og það er einmitt tímaskeiðið sem miskaverkin í Breiðuvík áttu sér stað. Löngum hafa svonefndir jafnaðarmenn gumað af afrekum sínum í velferðarmálum og víst gerðu þeir margt ágætt. En Breiðavíkurmálið er hluti af svartri fortíð Alþýðuflokksins.
Afsökunarbeiðni fagnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2009 | 10:43
Pólitískir umrenningar
Á síðustu misserum hefur Frjálslyndi flokkurinn þróast í þá átt að verða nokkurskonar ruslakista íslenskra stjórnmála. Fólk sem ekki hefur fengið brautargengi innan annara flokka fær þar inni og gerir flokkinn að leikvelli sínum. Í þessu sambandi má nefna flokkaflakkarann Kristinn H. Gunnarsson, Valdimar Leó Friðriksson sem kom úr Samfylkingunni rétt eins og Karl V. Matthíasson. Grétar Mar Jónsson þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi á fortíð sína í Alþýðuflokknum og Guðjón Arnar Kristinsson formaður flokksins var lengi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum. Allir hafa þessir menn borið við hugsjónum þegar þeir hafa hin pólitísku vistaskipti sín. Skýringin er þó önnur og hún kristallaðist í viðtali við Sverrir Hermannsson stofnanda flokksins í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum þar hann sagði að Guðjón Arnar vera góðmenni. Væri af þeim sökum viljugur "... að skjóta skjólshúsi yfir pólitíska umrenninga," eins og öldungurinn frá Ögurvík komst að orði.
Karl V. til liðs við Frjálslynda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2009 | 09:04
Siðað samfélag?
Stundum hefur verið sagt að skattar séu það gjald sem við greiðum fyrir siðað samfélag og auðvitað er þetta hverju orði sannara. En hversu siðað er samfélag okkar þegar mikilvægur málum í velferðarkerfinu verður ekki hrint í framkvæmd nema með atbeina líknarfélaga eða framlögum frá fólki og fyrirtækjum. Barnaspítali Hringsins er nefndur eftir kvenfélaginu sem hefur verið bakhjarl hans í áratugi og aðrar deildir Landspítalans - sem og í annara heilbrigðisstofnana - hafa í tímans ráð átt alls sitt undir gæsku og gjafmildi Oddfellowa, Ljónaklúbba, Kiwanis, tombólubarna og svo framvegis. Það er aumt samfélag sem á allt sitt undir líknarfélögum í verkefnum sem í réttu lagi er ríkisins að sinna.
Biðja líknarfélög um fé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |