28.4.2009 | 00:10
Grautur Jóhönnu
Er til of mikils mælst að forsætisráðherrann tali skýrt? Jóhanna Sigurðardóttir segist hér á Mbl.is "... ekkert viss um að það sé langt í land," þegar hún er spurð um hvort líklegt sé að vinstri flokkarnir nái samkomulagi um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Betur færi á því að Jóhanna segði að hún teldi góðar líkur á því að samkomulag náist. Eða þannig skil ég orð hennar. Orðhengilsháttur er aldrei til bóta. Grautarlegt orðalag er sömuleiðis í flestum tilvikum merki um grautarhugsun. Eða svo er sagt.
Ekki víst að langt sé í land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009 | 12:12
Einstefnumaðurinn Ásmundur!
Hvort núverandi ríkisstjórnarflokkar ná saman um áframhaldandi samstarf veltur fyrst og síðast á því hver afstaða VG til hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu sé. Ljóst er að veruleg andstaða er í þeim ranni við inngöngu í ESB og skoðanir Ásmundar Daðasonar á Lambeyrum eru skýrt dæmi þar um. Raunar má telja Ásmund fullkominn einstefnumann. Hann nálgast Evrópumálin fyrst og síðast út frá hagsmunum landbúnaðarins en lítur ekki á hlutina í víðara samhengi með þjóðarhag í huga.
Í síðasta Bændablaði sagði Ásmundur meðal annars. "Þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem vilja byggja upp öflugan landbúnað á Íslandi munu á næstu árum þurfa að sýna kraft sinn í verki og vera tilbúnir að tala máli landbúnaðarins. Stærsta málið er möguleg ESB-aðild, sem yrði gríðarlegt áfall fyrir íslenskan landbúnað, sjávarútveg og hinar dreifðu byggðir. Það er engin lausn á vanda þjóðarinnar að ganga í ESB," segir Ásmundur í grein sinni.
Raunar má sjá bráðmerkilegan punkt í viðhengdri Moggafrétt, þar sem segir að nokkuð sé um liðið síðan Dalamenn áttu síðast fulltrúa á Alþingi. Vegna ójafns vægis atkvæða milli kjördæma hefur landsbyggðin alltaf haft óeðilega mikil áhrif á landsstjórnina, miðað við höfðatölu. Í Dölunum búa þúsund manns og má því spyrja hvort ekki sé bráðnauðsynlegt að íbúar í Hraunbæ, fjölmennustu götu í Reykjavík, eigi líka sinn fulltrúa á þingi.
Ásmundur yngstur þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009 | 10:52
Grímudansleikir á enda
Síðustu árin hafa prófkjörin ekki átt neitt skylt við stjórnmálastarf. Þáttakendur hafa birst okkur á einhverskonar grímudansleikjum, þar sem gildir að sýna fremur en segjast. Auglýsingar þátttakenda hafa verið í anda fegurðarsamkeppa. Fallegasti frambjóðandinn á mesta möguleika. Ef prófkjörin líða undir lok rennir slíkt styrkari stoðum undir lýðræði í landinu. Yfirlýsingu Bjarna Benediktssonar ber því að gefa fullan gaum.
Tími prófkjara liðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009 | 10:40
Öfgakona kveður!
Á lokaspretti kosningabaráttunnar lét Kolbrún Halldórsdóttir frá sér fara, mjög svo undarleg ummæli um andstöðu sína við olíuvinnslu á Drekasvæðinu svonefnda. Strax og fréttin þar um var komin í loftið setti hún í bakkgírinn og sama gerði Steingrímur J. Sigfússon, enda þótt fréttamaður Stöðvar 2 þyrfti nánast að neyta aflsmunar til að fá afstöðu formannsins í ljós. Á tíu ára þingferli sínum hefur Kolbrún um margt verið, að mínum dómi, öfgafull í afstöðu sinni til umhverfismála, enda þótt ég efist ekki um góðan vilja hennar. En mér leiðast allir öfgar í hvaða átt sem þeir eru og finnst því meinlaust þótt krafta Kolbrúnar njóti ekki lengur við á Alþingi.
Ráðherra féll af þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009 | 09:59
Þrír vinnufélagar
Úrslit kosninganna eru athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Sé, þegar ég renni augum hér á Moggavefnum yfir myndir af nýjum þingmönnum, að þar eru gamlir vinnufélagar mínir. Við Guðmundur Steingrímsson störfuðum saman á Tímanum 1991 og leiðir mín og Róbert Marshall sköruðust þegar hann starfaði á Degi um skeið. Sá þriðji er Sigmundur Ernir Rúnarsson sem var ritstjóri minn á DV 2001 til 2003. Að sjá þessa birtast nú á Alþingi þarf ekki að koma á óvart því bæði blaðamennska og pólitiík snúast um það sama, það er menn og málefni og að finna leiðir og lausnir. Þessum þremur köppum - eins og öðrum - óska ég velfarnaðar á löggjafasamkomunni.
27 nýir þingmenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.4.2009 | 12:46
Vísbendingar um úrslit
Fréttir um að kjörsókn nú sé lítið eitt meiri en í kosningunum fyrir tveimur árum þýða að fólk fer á kjörstað til að styðja núverandi stjórnarflokka eða Framsókn. Fráleitt er að ætla að fólk flykkist í sólskinsskapi á kjörstað til að veita Sjálfstæðisflokknum brautargengi, enda líta svo flestir svo á að íhaldsmenn beri ábyrgð á hruninu mikla. Úr röðum sjálfstæðismanna heyri ég mikla gremju og þeir hinir sömu munu því fara seint á kjörstað, ellegar sitja heima. Fyrstu vísbendingar um úrslit kosninganna eru því þegar komnar fram.
Kjörsókn með ágætum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.4.2009 | 17:19
Ómerkilegar niðurstöður!
Merkilegt hvað stjórnmálafræðingar komast stundum að ómerkilegum niðurstöðum. Eða eru það vísindi að endursegja stefnuskrár flokkanna og draga sáraeinfaldar álykanir af orðum leiðtoga þeirra? Einar Mar Þórðarson er á algjöru grunnsævi þegar hann segist telja að næsta ríkisstjórn verði skipuð fulltrúum vinstri flokkanna sem muni láta reyna á aðildarviðræður við ESB. Það þarf engan akademíker til að segja okkur þetta. Viðtöl við fólkið í heita pottinum í sundlaugunum eða karlana sem eru í hádegismat í Múlakaffi hefðu verið allt eins merkilegt innlegg til þessarar umræðu.
Sögulegar kosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.4.2009 | 15:24
Góðar röksemdir!
Sú stutta frétt sem hér er viðhengd er ágætt dæmi um upplýsta Evrópuumræðu. Með rökum er sýnt fram á hver ávinningurinn af hugsanlegri aðild okkar að ESB gæti verið. Vextirnir sem við greiðum myndu lækka stórum og það munar um minna. Mætti ég fá meira að heyra í þessum dúr, umræðu með röksemdum en ekki hallærislegar 17. júní-ræður og það á öllum tímum árs.
Vaxtaávinningur af ESB-aðild: 228 milljarða lækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.4.2009 | 18:28
Hvalfjarðarsveit og Kjós!
Meira vægi atkvæða úti á landi en gerist í kjördæmunum á Reykjavíkursvæðinu hefur stundum verið réttlætt á þann veg, að landsbyggðarfólk hafi minna aðgengi að stjórnsýslunni og þeim vettvangi þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Þetta eru aum mótrök. Í dag geta allir sinnt sínum málum með mjög svipuðum hætti hvar sem þeir búa, þökk sé tækni og tækifærum nútímans. Fjarlægðin setur að vísu alltaf ákveðin takmörk, en aldrei svo stórkostleg að réttlæta megi stórkostlegt misvægi atkvæða. Tökum dæmi: Kjósverjar kjósa í Kraganum en þeir sem búa í Hvalfjarðarsveit í NV-kjördæmi. Vægi atkvæða þeirra síðarnefndu er helmingi meira. Er með einhverjum hætti hægt að verja þessi ósköp, jafnvel þótt Hvalfjörðurinn skilji á milli?
Tvöfaldur munur á atkvæðavægi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.4.2009 | 15:50
Listin skiptir mannlífið miklu
Traustir og vel fjársterkir aðilar tóku um sl. mánaðamót við rekstri Morgunblaðsins. Aðild þeirra að rekstri blaðsins mun án nokkurs vafa tryggja framtíð Moggans, sem ég lít á sem jafn sjálfsagðan og nauðsynlegan hlut og að Alþingishúsið standi við Austurvöll. Á þeim óvissutímum sem við lifum nú, þarf þjóðin trausta fjölmiðla. Og í harðærinu þurfum við sömuleiðis að gera vel við menninguna, hún er athvarf frá grámyglulegum harðindum efnahagslífsins. Einmitt þess vegna meðal annars er gott mál að útgáfumál á verkum Halldórs Laxness séu í skýrum farvegi, samanber sá samningur milli erfingja skáldsins og Forlagsins sem nú hefur verið undirritaður. Þjóðin mun nú í afleiðingum hrunsins gera sér grein fyrir hve listin skiptir mannlífið miklu, hvort sem kúnstverkið eru myndir, tónverk eða bækur.
Framtíð Laxness tryggð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |