29.1.2009 | 09:15
Árið 1989
Fyrir tuttugu árum voru aðalleikarar ríkisstjórnarinnar þeir Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Í stjórnarandstöðu voru sjálfstæðismennirnir Þorsteinn Pálsson og Davíð Oddsson, borgarstjórinn sem þá var ört rísandi stjarna. Önnur áberandi voru til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson var líklegur til að láta að sér kveða, eins og kom á daginn. Þá hafði ung kona sem átti sína fortíð í Kvennalistanum vakið eftirtekt, sú var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Í stéttabaráttunni voru Jakinn og Bjargvætturinn helstu garparnir, þeir Guðmundur J. Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson sem nú eru báðir horfnir fyrir hornið. Þriðji stórleikarinn var Ögmundur Jónasson þá nýlega kjörinn formaður BSRB, enda tíðkaðist þá sem nú að velja þekkta fréttamenn í sjónvarpinu til forystu í félagsmálum.
Merkilegt má kalla að nánast allt það fólk sem hér er nefnt er enn á fullu. Bessastaðabóndi fer með stjórnarmyndunarumboðið og uppi í Mosfellssveit situr Jón Baldvin hvar hann mælir sem hinn alvitri maður og horfir reiður um öxl. Allt þjóðfélagið hverfist nú sem fyrr um Davíð, seðlabankastjórann sem á sínum tíma felldi Þorsteinn í formannskjöri í Sjálfstæðisflokknum. Og Þorsteinn birtist okkur nú sem hinn yfirvegaði leiðarahöfundur Fréttablaðsins, sem skilgreinir þjóðfélagið með býsna athyglisverðum hætti og kemur oft með óvænt sjónarhorn á mál.
Jóhanna sem eitt sinn sagði að sinn tími kæmi verður væntanlega forsætisráðherra áður en vikan er úti og Össur er á góðri siglingu. Einasta breytingin sem orðið hefur virðist mér sú að Steingrímur Hermannsson er hættur í pólitík en Guðmundur sonur hans tekinn við keflinu og ætlar fram á hinum fornu veiðilendum föður síns og afa.
Það er ekkert nýtt undir sólinni.
![]() |
Nýtt verk, sömu leikarar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |