28.1.2009 | 11:59
Furðulegar fyrirframfréttir
Síðustu sólarhringa hafa ýmsir þingmenn Samfylkingar og VG verið nefndir sem líkleg ráðherraefni - og tilgreint hefur verið hvaða embættum þeir muni gegna. Össur á samkvæmt því sem fram hefur komið að taka við öllum atvinnuvegaráðuneytunum, Steingrímur verður fjármálaráðherra, Ögmundur tekur við heilbrigðismálunum, Katrín Jakobsdóttir fer í menntamálin og svo framvegis.
Allt er þetta þó næsta marklítið að ég tel. Nefna má, að í stjórnarmyndunarviðræðum 1983 var gert ráð fyrir því, allt fram á síðustu stundu, að Halldór Ásgrímsson tæki við fjármálaráðuneyti en niðurstaðan varð samt sú að hann fór í sjávarútvegsmálin. Og í þeim sömu viðræðum varð Steingrímur forsætisráðherra sakir þess hve bakland Geir Hallgrímssonar innan Sjálfstæðisflokksins var veikt.
Við myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988 var Guðrún Helgadóttir nefnd sem ráðherraefni og þótti sumum einboðið að hinn dáði barnabókahöfndur settist í stól menntamálaráðherra. DV birti vorið 1991 frétt um að Björn Bjarnason yrði heilbrigðisráðherra og fæstir sáu fyrir að Halldór Blöndal kæmist í ríkisstjórn eftir hraplegt gengi í kjördæmi sínu, þar sem hann fékk fjölda útstrikana. Svona mætti áfram tíunda ýmis dæmi af fyrirframfréttum um skipan ráðherrastóla. Menn skyldu því fara varlega að taka slíkum fréttir alvarlega nú.
Fundað um stjórnarmyndun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |