29.3.2009 | 20:07
Hvað gera þeir við ræfil eins og mig?
Samkvæmt markaðs- og auglýsingafræðum er sagt að fólk eigi ekki að skila boðskap heldur skynja. Þetta má til sanns vegar færa. Sjálfur hef ég fylgst með landsfundi Sjálfstæðisflokksins "með öðru eyranu" eins og stundum er sagt og skynjun hefur gripið mig að sjálfstæðismenn séu helsært dýr með orgar af sársauka. Hvergi hefur í landsfundarfréttum öðlað á sigurgleði, bjartsýni og sóknarhug. Allt slíkt eru tilgerðarleg látalæti. Flokkurinn er að sigla inn í kosningabaráttu og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Fyrir utan formannskjörið verður landsfundarins helst minnst fyrir ræðu Davíðs Oddssonar sem ég hef áður skrifað um. Undarleg voru ummæli hins fallna leiðtoga um brottrekstur sinn úr Seðlabankanum sem hann líkti við krossfestingu frelsarans, en um hana orti Vilhjálmur frá Skáholti svo í ljóðabók sem kom út líklega um 1950:
"Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur,
hvað gera þeir við ræfil eins og mig?
Nýrri kynslóð treyst til verks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2009 | 17:51
Að bjarga verðmætum
Fyrir tveimur árum eða svo hefðu fréttir dagsins efalítið fjallað um veldi og viðgang íslenskra kaupsýslumanna. Á árunum 2005 til 2007 byggðu þeir sjálfum sér ógnarstór musteri sem síðan reyndist ekki annað en fallvaltar spilaborgir. Í dag erum við hins vegar aftur farin að sjá fréttir sem þessa: um aflahrotu við suðurströndina þegar komið er fram undir páska - þegar allir þurfa að leggja hönd á plóg við að bjarga verðmætum sem aftur skapar fólki ágætar tekjur. Og frómt frá sagt. Mér finnst gaman að lesa svona fréttir: sögur af fólki sem er að skapa verðmæti og sofnar heiðarlega þreytt að kveldi.
Vertíðarstemmning í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 15:33
Góður maður kveður!
Geir H. Haarde hefur allt frá því hann var fyrst kjörinn til á Alþingi verið maður þeirrar gerðar að orð hans hafa vægi. Hann hefur sjaldan farið fram með stórar yfirlýsingar eða gífuryrði heldur farið með löndum í sérhverju máli. Vafalítið á Geir einhvern þátt í efnahagshruninu sl. haust rétt eins og aðrir sem áhrif hafa haft. Um sekt eða sýknu þar verður ekki skorið hér og nú. Eftir stendur að Geir hefur verið farsæll í störfum sínum og komið mörgu góðu til leiðar. Og um Geir vil ég það segja, að mér hefur alltaf fundist góður svipur í augunum hans; mannleg hlýja. Ég á eftir að sakna Geirs af vettvangi stjórnmálanna og trúi að margir séu mér sammála.
Geir kvaddi á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 14:49
Sannleikurinn um Jóhönnu - bréf frá Hrannari!
Vegna bloggs míns um forsætisráðherra fyrr í dag fékk ég bréf frá Hrannari B. Arnarsyni aðstoðarmanni ráðherrans sem ég birti hér með. Sjálfsagt mál að birta þetta -sbs
----
Sæll
Ég las bloggið þitt um að forsætisráðherra væri skák og mát í skuldaumræðunni - þetta er ekki rétt og ber þess merki að þú hefur ekki lesið ræðuna. Það hvet ég þig til að gera og skrifa síðan um málið í framhaldi af því. Hún mun birtast á síðu forsætisráðuneytis innan skamms. Þér til hægðarauka birti ég síðan yfirlit yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt í þessum efnum.
Aðgerðir til stuðnings skuldsettum heimilum
Skuldajöfnun verðtryggðra lána 10-20% lægri greiðslubyrði en ella
Frysting og í framhaldi skuldajöfnun gengisbundinna lána 40-50% lægri greiðslubyrði
25% hækun vaxtabóta hjón með 3-8 milljóna árstekjur hækka um rúm 170 þús, úr 314 þús í 487 þús á ári.
Útgeiðsla séreignasparnaðar milljón á einstakling, tvær milljónir á hjón
Greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs stórefld og samkomulag gert við aðrar fjármálastofnanir um að sömu úrræði gildi þar einnig.Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður
Heimild til að greiða bara vexti og verðbætur af vöxtum og frysta höfuðstól í allt að 3 ár.
Heimild til að frysta afborganir í allt að 3 ár.
Ýmsar mildari innheimtuaðgerðir
Greiðsluaðlögun samningskrafna
Lækkun dráttavaxta
Skuldfærsla barnabóta uppí skattaskuldir bönnuð
Skuldfærsla hverskonar inneigna hjá ríkinu uppí afborganir Íbúðalánasjóðs afnumdar
Frestun nauðungaruppboða fram til loka ágúst
Lenging aðfarafresta úr 15 dögum í 40
Aukin stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota
Greiðsluaðlögun fasteingaveðlána
Heimild til Íbúðalánasjóðs til að leigja fyrri eigendum húsnæði sem sjóðurinn eignast á uppboðum
25.3.2009 | 11:47
Stórkostleg speki
"Ef menn eyða meira en þeir afla endar illa."
Þetta er alveg stórkostleg speki hjá fjármálaráðherranum; ný hagfræðikennig sem vert er að gefa fullan gum.
Af þessu tilefni - þegar svona mikilsverð skilaboð liggja fyrir - vil ég segja við Steingrím frá Gunnarssstöðum:
"Far þú og gjör allar þjóðir að lærisveinum."
Of mikil eyðsla endar illa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 11:33
Ekki traustvekjandi!
Fyrir komandi kosningar er sú krafa rík að kastað verði bjarghring til skuldsettra fjölskyldna í landinu. Tvær hugmyndir hafa þar einkum verið nefndar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur talað um 20% flatan niðurskurð allra skulda heimilanna og Lilja Mósesdóttir frambjóðandi VG hefur komið með þá tillögu af skuldum hverrar fjölskyldu verið fjórar milljónir stýfðar af. Sjálfsagt hafa báðar þessar hugmyndir sína kosti og kalla, sjálfur treysti ég mér ekki til þess að leggja á þær mat svo vel sé. Hins vegar er athyglisvert að Jóhanna Sigurðardóttir flutti fundi ASÍ, skv. frétt mbl.is, ekki með neina tillögu um hvernig skera mætti úr snörunni fjölskyldurnar sem fastar eru í vítahring skuldafangelsis. Með öðrum orðum sagt þá er forsætisráðherrann algjörlega skák og mát í þessu máli; ráðalaus gagnvart því hvernig losa megi landsmenn úr hrikalegri prísund. Slíkt er ekki traustvekjandi.
Hafnar flatri niðurfærslu skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2009 | 13:38
Hælkrókur með hækkunum
Glímusýningunni er lokið. Forysta verkalýðsins og stjórnendur HB-Granda hafa reynt með sér í ýmsum fangbrögðum síðustu daga hvar hinir síðarnefndu sigruðu að lokum með góðum hælkrók. Hafa ákveðið að greiða starfsmönnum fyrirtækisins út þær launahækkanir sem umsamdar voru en hafði verið slegið á frest. Málið er dautt. En mikið óskaplega er leiðinlegt að sjá yfirlýsingar þar menn "harma neikvæða umræðu," eins og komist er að orði. Við lifum í samfélagi þar sem allar rökstuddar skoðanir eiga rétt á sér - eins og raunin hefur verið í þessu máli. Skiptir þá engu hvort umræðan er neikvæð eða kemur við einhverra kaun. Niðurstaðan er alltjend hærri laun.
HB Grandi hækkar laun starfsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2009 | 13:26
VG styðji hvalveiðar
Hvalirnir sem svamla á Íslandmiðum éta tugir tonna af fiski ár hvert. Efalítið má að því rök leiða að uppbygging almennra nytjastofna hér hafi land hafi gengið jafn hægt og raun ber vitni þar hvalveiðar eru ekki stundaðar. Viðbrögð verslunarkeðjunnar vestra eru eftir bókinni; allt gengur út á að skapa ímynd og sýndarveruleika þar sem staðreyndir mæta afgangi. Rétttrúnaður auglýsingasamfélagsins er sá að hvalir séu í útrýmingarhættu og því séu veiðar á þessum risaskepnum hafsins hreinasta goðgá. Þeirri bábilju er nauðsynlegt að hrekja með markvissri miðlun upplýsinga. Raunar ættu hvalveiðar að vera baráttumál Vinstri grænna sem skv. landsfundardrögum sínum vilja skapa ný störf í sjávarútvegi og með "nýtingu og vinnslu náttúruefna," eins komist er að orði. Þetta er rakið dæmi.
Hætta að kynna íslenskar vörur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2009 | 19:08
Ummæli sr. Gunnars árið 1983!
Séra Gunnar Björnsson var kvöldgestur Jónasar Jónassonar í samnefndum útvarpsþætti hins síðarnefnda þann 22. janúar 1983. Útskrift af viðtalinu er birt í bókinni Kvöldgestir sem út kom í árslok 1983. Þar inni er haft eftir sr. Gunnari um prestsskaparár hans í Bolungarvík og þjónustu við Hólssöfnuð:
"Ég held að söfnuður geri strangar kröfur til presta sinna. En ég held líka að söfnuðirnir fyrirgefi prestum sínum mikið ef þeim þykir vænt um þá. Mér fannst sambýlið við söfnuðinn við gott. Það var engan veginn lognsævi alltaf, en þegar fólk finnur að viðkomandi embættismaður sér ef hann hefur gjört á hluta einhvers og biðst afsökunar og vill gera gott úr málunum, þá er fólk alveg óðfúst að taka hann í sátt."
Sóknarprestur sýknaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2009 | 17:28
Kosningavélin komin á fullt
Samtök atvinnulífsins og þar áður Vinnuveitendasamband Íslands hafa jafnan verið einskonar deild innan Sjálfstæðisflokksins. Hafa talað eins og flokknum kemur sér best eins og fjöldamörg dæmi vitna um. Þess vegna má spyrja, hvers vegna SA hefur ekki brugðist við með ámóta hætti þegar fyrirennarar Jóhönnu hafa "svert einstök fyrirtæki" eins og sá annars prýðilegi maður, Skagfirðingurinn Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri samtakanna kemst að orði. Oft skammaði Davíð einstaka fyrirtæki og jafnvel lagði í einelti og þá var hvorki æmt né skræmt af forystu atvinnurekenda. Má þar nefna yfirlýsingar Davíðs um Jón Ólafsson, Kaupþing, Baug og raunar fleiri fyrirtæki. Nú verður hins vegar allt vitlaust yfir næsta meinlausri yfirlýsingu Jóhönnu um aðrgreiðslur Grandamanna. Af þessu má ráða að kosningavél Sjálfstæðisflokksins er komin í gagn - og allar sótraftar eru á sjó dregnir.
Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |