15.2.2009 | 13:27
Af sannri tilfinningu!
Í einhverju orðanna samhengi lét Hannes Smárason þau orð falla á sínum tíma að velgengni í viðskiptum byggðist meðal annars á því að loka á allar tilfinningar. Missa ekki sjónar á því eina markmiði að græða. Mátti á þeim orðum skila að einu gilti hvernig gróðans væri aflað. Allir vita hvernig fór fyrir Hannesi. Tunnan valt og úr henni allt, eins og máltækið segir. Eftir stendur hnípin þjóð í vanda; logsviðin eftir viðskiptahætti Hannesar og hans nóta. Manna sem láta enga iðrun í ljós, heldur koma frekar með útlistanir á því að ekkert hafi verið "ólöglegt eða óeðlilegt" við viðskiptagjörninga þeirra. Má þó öllum ljóst vera að eitthvað stórkostlega bilað hafi verið á ferðinni úr því örfáum mönnu tókst að setja heila þjóð á hausinn. Þjóðin á skilið afsökunarbeiðni frá þeim viðskiptamógúlum sem svo hátt flugu síðustu árin, en þó aðeins að mennirnir viðurkenni mistök sín beint frá hjartanu. Af sannri tilfinningu.
![]() |
Aldrei of blönk til að hugsa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |