7.1.2009 | 22:46
Upptaktur einkarekstrar
Núverandi skipan heilbrigðisþjónustu í landinu var sett á laggirnar þegar aðstæður voru allt aðrar. Þegar samgöngur batna er hins vegar eðlilegt að það fyrirkomulag sem gilt hefur um rekstur heilsugæslu og sjúkrahúsa verði endurskoðað og því breytt, ef ástæða er til. Reyndar mætti tiltaka ýmis fleiri svið í ríkisrekstri þar sem nýir tímar og tækni skapa ýmsa möguleika til hagræðingar. Það ætti ekki að vera nein goðgá að reka eina heilbrigðisstofnun í hverjum landsfjórðungi, það er ef í hverjum þéttbýliskjarna er að minnsta kosti lágmarksþjónusta svo öryggi íbúa sé tryggt. Hitt skyldu menn þó hafa í huga að kenningar um hagkvæmni stærðarinnar eru oftar en ekki merkingarlítið þvaður, eins og reynslan hefur sýnt. Eitthvað segir mér þó að fiskur leynist undir steini í þeim áætlunum um sameiningu heilbrigðisþjónustu sem nú liggja fyrir; það er að til standi að skapa aukið svigrúm fyrir einkarekstur. Upptakturinn hefur verið sleginn. Gefum okkur svona eitt ár héðan í frá - þá verður búið að koma hrinda stefnumörkun um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni í framkvæmd!
Svæðið stórt og samlegðaráhrifin mismikil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |