6.1.2009 | 13:43
Í minningu vinar
Mikið óskaplega getur óhamingjunni orðið margt að vopni. Í einni svipan er af slysförum horfinn frá okkur fjölskyldufaðir, traustur vinur, frábær og glaðvær félagi, öflugur málsvari hins réttláta og góða, snjall maður og útsjónarsamur sem mér finnst hafa verið í geislum sólar alla sína ævi. Við kynntumst fyrir rúmum þrjátíu árum og áttum samfylgd upp frá því. Fyrst sem skólafélagar og var hann seinna maður sem ég gat leitað til með mín veraldlegu mál. Lögfræðingurinn hafði svör á reiðum höndum. Því var ekki að ófyrirsynju að þessum frábæra manni væru falin svo mörg mál til úrlausnar í trausti þess að þau kæmust í heila höfn. Því er skaðinn óbærilegur fyrir svo marga, mest fjölskylduna sem nú syrgir.
Við töluðum saman síðast á sunnudag. Fyrir löngu var komin á sú hefð á, að við skiptumst á kveðjum á afmælisdögum okkar. Ég spurði hver staðan væri og hvort væri að birta yfir þjóðlífinu eftir hrakninga síðustu mánuða. Hann sagði svo vera. "Við getum ekki leyft okkur að hugsa öðruvísi," var svarið. Einföld orð sem örlögin hafa fengið nýtt inntak og merkingu.
Guðjón Ægir Sigurjónsson var drengur góður.