19.12.2008 | 09:23
Að fóta sig í fláum heimi
Í nýársárvarpi fyrir nokkrum árum gerði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sérstaklega að umtalsefni kjör og aðstæður þess fólks sem leita þyrfti á náðir hjálparstofnana, til að geta haldið jólin með reisn. Fram hefur komið, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru ókátir með að forsetinn bryddaði upp á slíkri umræðu. Töldu að með því, væri verið um of að beina sjónum að hag þeirra sem verst stæðu. Slíkt þótti hreinasta goðgá í rétttrúnaðarhyggju góðærisins. Þegar svo var frá því greint fyrir síðustu jól að færri hefðu sótt um aðstoð en áður skrifaði kappsamur frjálshyggjupenni á Viðskiptablaðinu pistil hér á bloggi Mbl. og sagði merkilegt að sú staðreynd ein og sér hefði ekki vakið verðskuldaða athygli. Mátti á orðum hans skilja, að góðærið skyldi engan útundan. Sjálfur tel ég að fjöldi þess fólks sem segir sig til sveitar og óskar eftir aðstoð skipti ekki öllu máli. Bágindin eru söm hver sem fjöldinn er. Fólki gengur einfaldlega misvel að fóta sig í flárri veröld - og gagnvart því höfum við sem betur stöndum ákveðnar skyldur. Ekki síst þegar helgar hátíðir nálgast: aldrei sem þá er neyðin jafn nístandi.
Hundruð mæta í hverja jólaúthlutun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:26 | Facebook