Færsluflokkur: Umhverfismál
13.1.2009 | 13:21
Pólferðinni lokið
Miðstöðin heima hjá mér hefur verið í einhverju lamasessi síðustu daga. Í gærkveldi sló þó um þverbak enda fór frost harðnandi. Sat í úlpu fyrir framan sjónvarpið og ástandið var líkast því að ég væri staddur í einhverjum heimsskautaleiðangri Vilhjálms Stefánssonar. Hef lesið bækur um þau ferðalög. Hringdi í pípara í morgun sem kom að vörmu spori. Sá skrúfaði, breytti, bætti, stillti og tengdi. Tveggja tíma vinna. Og nú hefur færst ylur í húsið. "Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn," kvað Tómas í ljóðinu Austurstræti. Sama gildir í mínum ranni: þar er nú allt í senn ljós hiti og hamingja. Pólferð minni er lokið. Mikið held ég að það sé gaman að vera pípulagningamaður og töfrað fram hita í köldum húsum.
Umhverfismál | Slóð | Facebook