Færsluflokkur: Menning og listir
28.12.2008 | 18:42
Þrír snillingar
Sem endranær er dagskrá Rás 1 í Ríkisútvarpinu prýðisgóð. Á öðrum degi jóla hlustaði ég á þátt þar sem vitnað var til ummæla Sigurðar Nordal prófessors. Hver setning var margræð og meitluð af mannviti og djúpri hugsun. Í sama þætti var leitað fanga í segulbandasafni RÚV og leikið viðtal frá árinu 1982 við Brodda Jóhannesson sem sagði frá sínum bernskujólum norður í Blönduhlíð. Alkunna er hvaða áhrif Nordal og Broddi höfðu á samtíð sína. Engin goðgá er að segja þá hafa flutt fjöll. Sama gerði Kristján Eldjárn. Ágætur lestur hans á sögu Stefáns frá Hvítadal var fluttur á Rás 1 nú síðdegis. Af þessu vaknar sú spurning hverjir samtíðarmanna okkar jafnokar þeirra höfuðsnillinga sem eru hér að framan nefndir. Stundum er spurt um áhrifamikla Íslendinganna og eru þá gjarnan dregnar fram fígúrur í viðskiptalífinu. Ég gef ekkert fyrir slíkt. Spyr hverjir séu þeir einstaklingar sem móta menningu, viðhorf og sjálfsmynd þjóðarinnar. Hin raunverulegu verðmæti. Hafi lesendur hugmyndir þar um, þá sendið mér tölvupóst.