Færsluflokkur: Dægurmál

Við Svörtuloft

Mótmælendur klifruðu upp á þak Seðlabankans og skemmdu þar öryggismyndavél.  Þau voru handtekin. Að öðru leyti voru mótmælin friðsæl. Þetta sagði í fréttum ljósvakans í morgun. Mér finnst þetta afar merkileg frétt. Í ljósi skemmdarverka og aðgerða lögreglu hvernig er þá hægt að halda því fram að allt hafi verið með friði og spekt við Svörtuloft eins og bankinn á Arnarhóli er stundum kallaður?
mbl.is Skemmdarverk við Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örþreytt söngvaskáld

Ummæli Harðar Torfasonar í gær eru með þeim hætti að ómögulegt er að misskilja eitthvað eða snúa út úr. Allt er þetta býsna skýrt. „Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna ... Það er til dálítið sem heitir einkalíf og svo er stjórnmálalíf. Það er tvennt ólíkt," sagði söngvaskáldið. Mér finnst engin vörn í því sem bloggarar halda fram að Hörður hafi látið sér þetta um munn fara örþreyttur. Skömmin er söm fyrir því - og eðlilegt er því að maðurinn axli ábyrgð og víki úr forystu Radda fólksins.

 


mbl.is Greinilega snúið út úr ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsögð kurteisi

Ábendingar Umboðsmanns Alþingis snúast oftar en ekki um atriði sem eru lögfræði með öllu óviðkomandi. Opinbert stjórnvald á að svara öllum þeim erindum sem til þess berast, slíkt er einfaldlega spurning um sjálfsagða kurteisi og mannasiði. Merkilegt að atbeina Umba þurfi til að benda hinu virðulega ráðuneyti á slíkt. Og apparöt kerfisins eiga heldur ekki að taka sér eilífðartíma í að svara bréfum, jafnvel ár. Þegar skriflegum erindum er ekki svarað er það í raun ígildi þess að ráðuneytið svari aðeins völdum símtölum frá vildarvinum, jafn fáránlegt og það kann að hljóma. Stjórnsýslan er fyrir fólkið en ekki öfugt. Sjálfur þekki ég Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra af góðu einu og trúi að hann kippi þessu í liðinn.

 


mbl.is Fjármálaráðuneytið svari erindum sem því berast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómarktæk skýrsla

Úttektum og athugunum sem opinberir aðilar gera er ætlað að tryggja hag neytenda og veita seljendum aðhald. Ósennilegt má þó teljast að þau markmið náist séu vinnubrögðin almennt eins og við sjáum í þessari úttekt heilbrigðiseftirlits Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Ekkert er sagt hvaða búðir selji besta ísinn eða hverjar þær verslanir eru sem selja ís sem inniheldur alltof mikið af gerlum. Á heitum sumardögum er yndisgott að fá sér ís og þá væri allra þakka verðast ef við fengjum að vita hvort ísinn sé betri á einum stað frekar en öðrum. Er ísinn í Skalla í Árbænum til dæmis betri en í ísbúðinni Álfheimunum? Skýrslan svarar engum af þessum spurningum og er fyrir vikið algjörlega ómarktæk, þarflaus og þeim er að henni standa til lítillar frægðar.

 


mbl.is Víða pottur brotinn í íssölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illa gefnir eftiráspekingar

Morgunblaðið birti snemmárs 2006 greinar þar sem uppbygging og rekstur íslenskra fjármálafyrirtækja var gagnrýndur. Umfjöllunin var byggð á mati erlendra sérfræðinga og greiningarfyrirtækja. Ein grein Mbl. bar einfaldlega yfirsögnina Bankar á bráðnandi ís. Með þennan fréttaflutning voru bankastjórarnir ókátir. Í viðtali sagði Bjarni Ármannsson að þekking starfsmanna Moggans á gangvirki fjármálalífsins mætti vera á "hærra þekkingastigi". Svipuð ummæli annara stjórnenda fjármálafyrirtækja má tiltaka. Sigurður Einarsson sagði danskan blaðamann sem spáði falli íslensku bankanna "óvenjulega illa gefinn" og í einhverju samhengi töluðu Kaupþingsmenn um "eftiráspekinga". Svör við gagnrýni voru yfirleitt í þessum dúr. Nú, þegar Bjarni Ármansson, hefur endurgreitt Glitni 370 milljónir sem einskonar syndaaflausn, er kostulegt að lesa ummæli hans. Bankastjórinn fyrrverandi segir að launagreiðlur bankans hafi verið ofrausn, íbúðalánin og svo framvegis. Er því eðlilegt að spurt sé, hvort stjónrendur bankanna hefðu ekki þurft að vera menn meiri þekkingar, en ekki "eftiráspekingar" sem eru "óvenjulega illa gefnir", svo notuð séu þeirra eigin orð.

  


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjáröflun með fírverki!

Milli Jóns Magnússonar alþingismanns og Kristins Ólafssonar framkvæmdastjóra Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hefur risið sérstök deila sem birst hefur á netmiðlum í dag. Þingmaðurinn sagði í útvarpsviðtali í morgun að fólk gæti sparað með því að kaupa ekki flugelda. Það telur slysavarnarmaðurinn út í hött. Segir að nær væri að hvetja fólk til að kaupa ekki áfengi. Í þessari deilu dagsins hafa báðir nokkuð til síns máls. Í núverandi árferði þurfa allir að spara og má einu gilda hvar borið er niður. Sjálfur vil ég björgunarsveitum þó allt hið besta. Tel óeðlilegt að félagasamtök sem gegna mikilvægu hlutverki í almannavörnum eigi nánast allt sitt undir sveiflukenndri fjáröflunarstarfsemi, eins og fírverkinu. Hlutverk öryggis- og björgunarsveita er síst minna en t.d. lögreglu, sjúkrastofnana og fleiri slíkra sem alfarið eru reknar fyrir opinbert fé.

 


mbl.is „Fer þokkalega af stað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan verður djúp

Fróm eru orð spámannsins sem stýrir Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (AGS) um að ríkisstjórnir heimsins verði að auka útgjöld. Með slíku megi tryggja hagvöxt og koma í veg fyrir að kreppan mikla verði jafn djúp og allt bendir til. Í þessu sambandi er hins vegar vert að hafa í huga að niðurskurður íslenskra stjórnvalda nú er meðal annars af hálfu AGS. Okkur er gert að draga úr útgjöldum á sama tíma og aðrar þjóðir séu hvattar til hins öndverða. Verulega er stýft af skv. fjárlagafrumvarpi næsta árs og enn meira verður skorið af á árinu 2010 skv. því sem ráðherrar hafa greint frá. Hér tekur hvað í annars horn. Niðurskurður nú mun því leiða til þess að kreppan á Íslandi verður mjög djúp. Innspýting í hagkerfið meðal annars með mannaflsfrekum framkvæmdum hefði heilmiklu breytt.

 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhamingja Sullenberger

Á krepputímum þurfum við bjartsýnismenn. Íslendingar munu ekki sigrast á þeim vandamálum sem nú eru uppi, nema dugandi fólk leggi á brattann og fikri sig upp þrítugan hamarinn. Á hinn bóginn er afleitt upplegg, að fara út í viðskipti með hefnd að leiðarljósi og til höfuðs einstaka mönnum; það er Baugsfeðgum. Sé lagt upp í för með óhamingjunni einni verður útkoman eftir því. Af hálfu Sullenberger væri trúverðugt að segjast ætla í bísness, einfaldlega til að græða peninga og verða stór og sterkur. Vafasamt að nú sé rétti tíminn til að opna verslun; sbr. að í haust setti Bauhaus fyrirætlanir sínar þar um á ís og staða margra kaupahéðna virðist býsna bág. 


mbl.is Hyggst stofna lágvöruverðsverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband