Steinum velt við!

Kjörorð Samfylkingarfólks eftir hrunið var að öllum steinum skyldi velt við og allt ætti að vera uppi á borðum. Þetta er að ganga eftir og samám saman verður heildarmyndin lýðum ljós. Allra flokka frambjóðendur hafa, samkvæmt fréttum, notið velvildar og ríkulegra framlaga úr sjóðum þeirra burgeisa sem hæst flugu í góðærinu og fengið brauðmola úr þeim ofboðslegu veisluhöldum sem hér voru við lýði alveg fram á síðasta ár. Mér finnst of stóryrt að tala um mútugreiðslur. Bæði Steinunni Valdísi og Guðlaug Þór þekki ég sem þokkalega ærlegt fólk og ætla þeim aðeins gott eitt til. Mikilvægt er að við drögum lærdóm af þessum styrkjagreiðslum - og tryggjum að svona nokkuð hendi ekki aftur meðal annars með því að setja stjórnmálalífinu í landinu skarpari leikreglur en gilt hafa til þessa.

 


mbl.is Steinunn Valdís fékk fjórar milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytir borg um svip

Fljótlega eftir síðustu borgarstjórnarkosningar setti þáverandi meirihluti borgarstjórnar af stað mikla hernaðaráætlun sem miðaði að því að fegra borgina. Glaðhlakkalegur Gísli Marteinn sást í fjölmiðlum að tína rusl og Vilhjálmur Þ. stóð vígreifur með háþrýstibyssu heima í Breiðholtinu í ærlegri tiltekt. En nú eru aðrir tímar. Rusl er látið liggja á víðavangi og smám saman mun borgin okkar fátæklega breytast í ógeðslegt fátæktraslömm. Breytir borg um svip, var forðum sungið - og eins að ekkert væri fegurra en vorkvöld í Reykjavík. Hvað hefur orðið um grænu byltinguna sem boðuð var hér um árið?

 


mbl.is Garðaúrgangurinn verður látinn liggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki jafn svæsið ...!

Eftir því lengur hefur liðið, hefur komið í ljós að sú skuldasúpa sem íslenskir skattgreiðendur sitja í, vegna ábyrgða ríkisins á skuldbindingum föllnu bankanna, er ekki jafn hrikaleg og útlit var fyrir í fyrstu. Þetta sannar lögmálið: það sem er stórmál í fyrstu er sjaldnast ekki jafn svæsið þegar stundir fram líða. Vonandi gildir þetta líka um skuldir heimilanna, finna þarf lausnir svo fólkið og heimilin í landinu geti náð sér upp úr hrikalegu dýki og skuldasúpu - og eitthvað segir mér að þegar gengi krónunnar styrkist og vextir lækka megi leysa mál margra illra staddra fjölskyldna. Hvernig sem velkist í veröldinni - þá heldur lífið áfram og hið góða sigrar alltaf að lokum.

 


mbl.is Óvænt fé í íslenskum banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfar út úr hól!

Að framboð fái að kynna sig og sitt með einum hætti fyrir einar kosningar er ekki endilega ávísun á að staðið skuli að kynningu á RÚV með líku lagi fyrir þær næstu. Sjónarmið um að reynt sé að þagga niður í nýjum framboðum er einfalt og ódýrt trix til að komast í umræðunni undir þeim formerkjum að framboðin nýju sé fórnarlömb ofríkis og ólýðræðislegra fjölmiðla. Hvað varðar svo framboðin nýju, Borgarahreyfinguna og Lýðræðishreyfinguna, þá var innlegg þeirra í umræðuþáttinn úr NA-kjördæmi í Sjónvarpinu í gær frekar ómerkilegt. Frambjóðendurnir höfðu fátt til málanna að leggja, voru vandræðalegir í allri framgöngu og  virkuðu á mig satt að segja eins og álfar út úr hól! 
mbl.is Segja þaggað niður í nýjum framboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk töfrabrögð!

Fyrir síðustu kosningar gagnrýndi Steingrímur J. Sigfússon - sem og hans nótar á vettvangi VG - þáverandi stjórnarflokka mjög harðlega fyrir að spila út trompum fáeinum dögum fyrir kosningar. Altjend væri hið versta mál að skuldbinda ríkisvaldið langt fram í tímann, þegar kjörtímabil væri að renna út. Svo virðist sem Steingrímur hafi gleymt þessum ummælum sínum, nú þegar hann ræðst í umfangsmiklar breytingar á stjórn fiskveiða níu dögum fyrir alþingiskosningar. Ég ætla ekki að hafa neinar efnislegar skoðanir á því hvort strandveiðar séu betri en byggðakvóti en mér finnst ömurlegt þegar alþingismenn eru ekki samkvæmari sjálfum sér en að framan er lýst. Öllu er umbylt fáum dögum fyrir kosningar. Raunar herma mínar heimildir að landbúnaðarráðherrann frá Gunnarsstöðum sé með einhver tromp uppi í erminni sem hann ætlar að kynna á allra næstu dögum. Já, víða leynast kanínur í höttum þegar sýna þarf pólitísk töfrabrögð!

 

 

 


mbl.is Strandveiðar í stað byggðakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilji og veruleiki!

Firrtur væri sá frambjóðandi sem segðist ekki ætla að verja velferðina. Um markmiðið eru í sjálfu sér allir sammála og því eru umræðurnar nú hjal um eitthvað sem engu skiptir. Þegar kemur síðan að þeim háa hjalli sem er að borga niður skuldafjallið mikla og losa um þau bönd sem óreiðumenn útrásarinnar hafa reyrt okkur í vandast málið. Nema hvað alltaf er auðvelt að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og ráðast á velferðina, öryrkjana og ellilífeyrisþegana; þeirra sem enga eiga sér málsvara á löggjafasamkomunni. Allir vilja verja velferðina en vilji og veruleiki fara ekki alltaf saman.

 

 


mbl.is Vilja verja velferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjóvgun handan um höfin

Fullyrðingar þær sem Jón Bjarnason setur fram í pistli sínum eru verulega hæpnar. Hann segir meðal annars að forystumenn Samfylkingarinnar telji aðild að ESB altæka lausn á öllum þeim vandamálum sem Íslendingar þurfa nú að kljást við. Slíku hefur aldrei verið haldið fram og þó er ég enginn aðdáandi Samfylkingar. Raunar þvert á móti. Hef heldur enga afgerandi skoðun á hugsanlegri aðild að ESB, nema þá að Íslendingar sem eyþjóð hafa ekki efni á einangrun. Leyfi mér í því sambandi að vitna í pistil Sigurbjörns Einarssonar biskups "Mikið að þakka" sem er í bókinni Sókn og vörn sem út kom árið 2002:

"Hvað hefur gerst jákvæðast í sögu Íslands án þess að útlend áhrif kæmu þar við sögu ... Ég veit ekki betur en að allt sem heitir íslensk menning, hafi fengið lífsfræ og frjóvgun handan um höfin. Annað hefur líka borist frá öðrum löndum og er núna að berast í stríðum straum og fossaföllum. Og ýmsum rásum er af stakri árvekni haldið opnum fyrir þeim þrýstingi."

 

 


mbl.is Segir Samfylkinguna að einangrast í ESB-umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég var stoppaður fyrir OF HÆGAN AKSTUR!!!

Lögreglan á Selfossi stoppaði mig í gærkvöldi við Hveragerði, þegar ég var á leiðinni frá Selfossi til Reykjavíkur. Ég hef alltaf verið hræddur ökumaður og í þetta skiptið var ég víst ekki nema á 65 kílómetra hraða og löng bílalest á eftir. Bláu ljósin blikkuðu, háu ljósin voru sett á og þar með vissi ég hvað til míns friðar heyrði. Ég vék út í kant, stoppaði og brosmildur lögregluþjónn bað um ökuskírteinið. Hann var með ölvunarmæli í hendinni en gerði sér strax að ég aksturshæfur. Eða að minnsti kosti edrú, þótt ég láti liggja milli hluta hvort ég hafi verið eða sé almennt í lagi. En brosmilda löggan bað mig framvegis um að víkja betur út í kant á hægferðinni, ella mynduðust langar bílalestir sem væri slæmt fyrir umferðaröryggi. Svo lærir hver lengi sem hann lifir og hjá mér er víst kominn tími til að slá í klárinn!


mbl.is Tveir ökumenn undir áhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustari en bjargið sjálft!

Ætla ekki að hafa stórkostlegar skoðanir á hlut Kjartans Gunnarssonar í þessu máli. Hins vegar þegar er litið er til baka má segja að Sjálfstæðisflokknum farnaðist vel undir styrki framkvæmdastjórn hans. Hvað sem líður allri pólitík vil ég um Kjartan segja, að af litlum kynnum hefur mér jafnan fundist sem þar fari góður maður og bráðskemmtilegur. Sumir eru smámenni í andanum en Kjartan hefur til að bera mikla persónu og hann er traustari en bjargið sjálft. Á flakki vestur á fjörðum fyrir nokkrum árum hitti ég Kjartan á sveitasetri hans - og það var frábærlega gaman að spjalla við hann um menn og málefni og Rauðasandinn, sem hann hefur tekið ástfóstri við.
mbl.is Fráleitt að draga nafn Kjartans inn í atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skinhelg umræða um styrki

Í nútímanum þykir sjálfsagt að leita stuðnings fyrirtækja um stórt og smátt. Velferðarmálum ýmiskonar er komið á rekspöl með starfi sjálfboðaliða sem leita til fyrirtækja um stuðning og velþekkt er að nauðsynlegur tækjabúnaður á heilbrigðisstofnunum er oft fenginn með gjöfum frá kvenfélögum, ljónaklúbbum, frímúrurum og öðrum slíkum. Og engin takmörk eru á því hvað slíkar gjafir mega kosta.

Og hver segir að fólk úr áðurnefndum félögum njóti þá ekki sérstakrar velvildar á sjúkrahúsunum; sé hugsanlega tekið fram fram fyrir aðra á biðlistum? Lætur yfirlæknirinn hið veitula fólk einhvers njóta þegar kemur að því að það sjálft eða einhver úr þess fjölskyldu þess þarf læknismeðferðar með? Oft hafa líka gengið sögur um að gamla fólkið fái greiðari aðgang að dvalarheimilum arfleiði það viðkomandi stofnun að eigum sínum.

Undir öfugum formerkjum má spyrja hvort stuðningur fólks og fyrirtækja við stjórnmálaflokkana sé óðeðlilegur ef allt er allt gegnsætt og uppi á borðum og má þá einu gilda hver upphæðin er. Er endilega víst að stjórnmálamenn missi dómgreindina og hygli fólki út á það eitt að viðkomandi hefur greitt í flokkssjóðinn? Altjend eru stjórnmálaflokkarnir opnar og lýðræðislegar fjöldahreyfingar og engan þekki ég sem er í  pólitík öðruvísi en svo að vilja ekki samfélagi sínu vel.


mbl.is Framsókn opnar bókhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband